141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvelt að standa við kosningaloforð sem gengur út á að stofna nefnd. Það er staðið við það á einum degi, mjög einfalt, stofna bara nefndina, þá er hún komin, búið að efna það loforð eins og framsóknarmenn hafa haldið hér fram.

Varðandi tillögur okkar sjálfstæðismanna þá höfum við margoft á þessu kjörtímabili lagt fram heildstæðar efnahagstillögur og þær hafa hlotið ágætishljómgrunn hjá landsmönnum, líka hjá sjálfstæðismönnum. Þar ber hæst tillaga sem hefði skilað okkur miklu hefði hún verið samþykkt. Það var frumvarp frá hv. þáverandi þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að þau mál er vörðuðu úrlausn skuldavanda heimilanna mundu fá flýtimeðferð í dómstólakerfinu. (Gripið fram í.) Það hefði verið afskaplega gott hefðum við öll hér inni haft kjark til að standa saman að því máli. Það hefði verið frábært.

Í efnahagstillögum okkar höfum við síðan stutt þá leið að menn sem eru komnir í þá stöðu að ná ekki að bjarga sér út úr vandanum geti skilað lyklunum. Ég hef ekki heyrt annað en menn séu ágætlega sáttir við það.

Niðurstaða landsfundarins var góð. Niðurstaða landsfundarins var sú að allir fulltrúar landsfundar greiddu þeirri niðurstöðu og tillögu sem kom á fundinum atkvæði sitt og allir voru sáttir. Þannig var það. Þótt hv. þm. Eygló Harðardóttir þykist vita allt sem gerist á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þá man ég ekki eftir að hafa séð hana þar í salnum, enda held ég að hún hafi ekki sóst mikið eftir því að komast þar inn. En niðurstaðan var skýr. Við ætlum okkur að koma til móts við skuldsett heimili. Við ætlum okkur í fyrsta lagi að nálgast greiðsluvanda heimilanna með því að auka ráðstöfunartekjur þeirra með aðgerðum sem stuðla að því að atvinnulífið verði öflugra og síðan með skattalækkunum. Við ætlum okkur að ráðast að skuldavandanum með því að fara í gegnum skattkerfi. Okkar leiðir miða að því. Þar eiga allir sem vilja og þurfa á að halda að sjá lausnir sem eru raunhæfar og munu skila árangri.