141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu er auðsvarað: Nei, það mun ekki falla kostnaður á annan en ríkissjóð. Ríkissjóður notar svigrúm sem við vitum að verður eftir á vaxtabótaliðnum til að gera þetta og mæta þessum hópi sérstaklega.

Hvort það hefði verið metið hvort leggja ætti inn á höfuðstól lána þá var það auðvitað hugleitt en niðurstaðan fólst í því að leyfa fólki að taka sjálft ákvörðun um hvort það nýtti þá fjármuni sem það fengi til að setja inn í höfuðstólinn eða nýtti þá með einhverjum öðrum hætti. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að reka húsnæði í dag og vera með lán af þessu tagi og þess vegna var tekin ákvörðun um að ýmsir sem eru í greiðsluvanda ekki síður en skuldavanda gætu tekið ákvörðun um hvað hentaði fjölskyldunni betur, að nýta fjármunina til að bæta upp ákveðið útgjaldatap sem hefur orðið og þrengingar í rekstri heimilisins vegna þessara lána eða setja þá inn á höfuðstól lánanna. Eins og leiðin er sem við förum hér stendur það val opið fyrir hvern sem er.