141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt hvað varðar vaxtabætur vegna lánsveðs, nýtt form. Hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásbjörn Óttarsson hafa rætt þetta ítarlega þannig að ég ætla ekki að fara mikið nánar út í það, en fyrst hæstv. ráðherra er hér stödd vil ég þakka henni fyrir þetta frumkvæði. Þetta er eiginlega fyrsta frumkvæðið hvað varðar þessi lánsveð sem hafa ætíð verið mikið vandamál.

Lánsveðin voru veitt á sínum tíma sem aðstoð foreldra við börnin sín til að kaupa íbúð. Það var oft mjög hentugt þegar foreldrarnir voru komnir í skuldlitlar eignir og börnin vantaði eigið fé sem er krafist og sluppu þau þannig fyrir horn með því að foreldrarnir lánuðu veð. Þarna var náttúrlega farið fram hjá því að börnin hefðu eigið fé í fasteignakaupum.

Þetta er á margan hátt dálítið óeðlilegt form. Ég hef varað við þessu alveg síðan 1970 eða 1980 því að það voru svo mörg dæmi þar sem fólk hafði lánað veðið til einhverra sem skildu síðan og slíkt og voru eiginlega ótengdir og allt í einu þurfti veðhafinn að fara að borga fyrir einhvern sem kom honum í rauninni ekkert við. Þetta á sérstaklega við um ábyrgðir hjá LÍN. Í þessu frumvarpi er ekki miðað við ábyrgðir heldur bara lánsveð og ákveðið tímabil.

Veðhafar eru afskaplega missettir. Sumir eru á góðum stað í lífinu með skuldlausar eignir og þokkalega afkomu. Fólk sem ekki skuldar er tiltölulega vel sett. Ég held að það séu um 21% heimila sem skulda ekki í íbúðinni sinni. Þar af eru sennilega töluvert margir sem hafa lánað veð.

Það sem ég hef út á þetta að setja er í fyrsta lagi þau skilyrði að menn hafa átt íbúðina 31. desember 2010. Menn eru kannski búnir að selja hana og fá svo einhverjar bætur. Það eru dálítið hastarleg skilyrði ef menn seldu í byrjun desember 2010 fá ekki neitt o.s.frv. En það er kannski alltaf erfitt. Svo er það þetta tímabil, ég hefði talið að það ætti að vera frá nóvember 2004 til nóvember 2009. Bólan stóð eiginlega yfir þann tíma og það fólk sem keypti á því tímabili hefur tapað í þeim skilningi að íbúðin hefur hækkað minna en lánin.

Svo vil ég benda á að þetta eru engar stórar upphæðir. Þetta er 160 þús. kr. hámark hjá einstaklingi og 280 þús. kr. hjá hjónum. Það munar um það þegar um er að ræða greiðslubyrði en munar lítið um það þegar um er að ræða skuldabyrði. Svo er dálítið athyglisvert með hámarkið, 500 milljónir, að menn þurfi í fyrsta lagi að sækja um bæturnar. Þeir sem missa af því að sækja um fyrir 15. september missa af því að fá bætur. Það er spurning hvað menn eru vel upplýstir. Síðan er allt lagt saman og menn skertir ef heildin fer yfir 500 milljónir. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að það er til peningur fyrir þessu á fjárlögum. Það er alltaf ánægjulegt.

Þegar maður skoðar niðurstöðuna þá eru lánsveð hjá 2 þús. aðilum eitthvað um 9,3 milljarðar. Settir verða 0,5 milljarðar í þetta. Það nær ekki 10%, það er um 5%, þannig að það munar ekki mikið um þetta fyrir vandann.

Vandinn er eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á, það er svo erfitt að láta lífeyrissjóðina borga þetta eða skylda þá til að gera það vegna þess að það skiptir engu máli hvað opinberu sjóðirnir borga því að ríkið stendur undir réttindunum. Það er einn mesti vandinn í almenna lífeyrissjóðakerfinu. Ég hef margoft bent á það. Þar eru alla vega tvær sprengjur, það er B-deild og A-deild LSR og svo almennu lífeyrissjóðirnir. Það er farið að koma í ljós að munurinn er mjög mikill.

Þrátt fyrir þessa annmarka tel ég jákvætt að það sé verið að reyna að taka á þessum vanda sem er allt að því óleysanlegur út af mismun í lífeyrissjóðakerfinu. Það sem mér finnst slæmt við þetta er að ekki sé horft til stöðu einstakra veðhafa. Þeir geta verið mjög vel settir. Svo fer þetta náttúrlega ekki til veðhafanna, þ.e. þetta minnkar ekkert endilega skuldina. Fólk getur notað peninginn í eitthvað allt annað. Margir eru í miklum greiðsluerfiðleikum bara vegna venjulegrar framfærslu. Það vill nefnilega svo til að framfærslan hækkar líka með aukinni verðbólgu. Það virðist oft gleymast.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Mér finnst málið jákvætt og mér finnst að hv. nefnd sem fær það til skoðunar og ég sit í þurfi að skoða það nákvæmlega. Svo þykir mér ótrúlegt að ætlast sé til þess að þetta verði afgreitt fyrir morgundaginn því að þá er þingið búið samkvæmt áætlun. Ég held að það trúi því reyndar enginn lengur að sú áætlun haldi. Það mun því gefast afskaplega lítill tími til að fara í gegnum þetta mál og það finnst mér ekki vera gott.