141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi neytendalánin og veð á þeim þá sá ég þau alltaf sem veð lántakanda sjálfs, að hann legði inn veð þannig að hann þyrfti ekki að fara í greiðslumat og annað slíkt þegar hann vantaði lán til skamms tíma. Það að menn væru með veð frá þriðja aðila sá ég ekki fyrir. Það má að sjálfsögðu skoða að það verði ekki algengt því að ég tel það ekki gott.

Varðandi það að menn spari og eigi þannig eigið fé þegar þeir kaupa sér tel ég vera mjög brýnt. Síðastliðin fjögur, fimm ár hefur verið stöðug atlaga að sparnaði sem menn hafa kallað fjármagnseigendur sem er ljótt orð og er ekkert annað en heimili því að fjármagnseigendur eru aldrei neitt annað en heimili. Ég vildi gjarnan að menn bentu mér á einhvern annan aðila en heimili sem er fjármagnseigandi annaðhvort í gegnum skyldusparnað, í gegnum lífeyrissjóðina sem eiga heilmikið fjármagn, sem heimilin eiga, ég vona að menn haldi ekki neitt annað, eða í gegnum frjálsan sparnað. Þetta er uppspretta peninganna, þetta er uppspretta fjárins. Ég tel mjög brýnt að menn fari að hvetja til sparnaðar því það er búin að vera endalaus atlaga gegn sparnaði. Ég minni á það fólk sem leggur til dæmis til að verðtrygging verði afnumin. Hún sparar eigendum ekki mikið vegna þess að menn þurfa að binda sparifé sitt í þrjú ár og menn treysta kannski ekki bönkunum í þrjú ár. En atlagan að sparnaði tengist því að afnema verðtryggingu, tvöfalda skatt á sparnað, vexti og fjármagnstekjur og annað slíkt. Atlagan að sparnaði er búin að vera endalaus. Auðvitað vil ég að fólk spari og eigi eigið fé til að kaupa íbúð.