141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Eins og kom fram í máli aðalhagfræðings Seðlabankans fyrir efnahags- og viðskiptanefnd er sparnaður heimila landsins með tvennum hætti. Annars vegar leggur fólk lögbundinn sparnað í lífeyrissjóðina og síðan leggur það fé sitt í húsnæði. Það eru tvær meginsparnaðarleiðir heimila landsins.

Hv. þingmaður talaði um að menn þyrftu að huga að því hverjir eigi féð sem hefur sparast í lífeyrissjóðunum og að alveg væri ástæða fyrir þá sem stjórna lífeyrissjóðunum að hafa það í huga svo hæstv. fjármálaráðherra neyðist ekki til að koma eitthvað svona, enn einn plásturinn. Það þarf að gæta að því að hagsmunir þess sparnaðar sem er í lífeyrissjóðunum hlýtur að þurfa að fara saman við hinn sparnaðinn sem felst í húsnæðinu. Unga fólkið, sem er svo sannarlega í vanda, er í skuldavanda. Það stendur frammi fyrir því að vera fast í húsnæði sínu. Þetta hér mun ekki leysa vanda þeirra, það mun svo sannarlega ekki gera það. Ég tel að hv. þingmaður þurfi að skoða mjög vel ákvæðið í frumvarpinu um neytendalánin því þar er ekki fyrst og fremst verið að tala um að koma með veð ef fólk ætlar að kaupa sér bíl eða þvottavél heldur falla fasteignalánin þar undir líka. Ef fólk stenst augljóslega ekki lánshæfis- eða greiðslumat getur það komið með veð frá öðrum þannig að alveg skýrt sé að það er ekki fært um að borga af því láni sem það ætlar að taka. Er það í lagi að mati hv þingmanns?