141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var búinn að svara þeirri spurningu bæði í ræðunni og núna, ég er á móti því að til séu lánsveð yfirleitt, hef verið það lengi og hef varað við þeim aftur og aftur.

Varðandi sparnað í húsnæði og lífeyrissjóðunum eru 2.400 milljarðar í lífeyrissjóðunum, það eru 20 milljónir á hvert heimili, sem heimilin eiga þar. Það er miklu meira en fólk á í íbúðum sínum þannig að þeir sem gæta hagsmuna heimilanna og heita Hagsmunasamtök heimilanna ættu fyrst og fremst að horfa á lífeyrissjóðina þegar talað er um fjárhagslega hagsmuni heimilanna.

Svo er til veiklulegur frjáls sparnaður. Hann var að raungildi, og þá er ég að tala um raungildi miðað við daginn í dag, 700 milljarðar fyrir fjórum árum. Hann er dottinn niður í 450 milljarða, hann hrynur mjög hratt enda eru vextir bæði neikvæðir og skattaðir með síhækkandi skattprósentu. Það kallaði ég atlögu að frjálsum sparnaði.

Það er mjög slæmt að fólk eigi ekki sparnað upp á að hlaupa þegar eitthvað kemur fyrir, hvort sem það eru veikindi, atvinnuleysi, skilnaður, fólk segir upp vinnu, fer í nám eða eitthvað slíkt. Það er mjög slæmt almennt þegar fólk á ekki sparifé. Menn ættu að eiga 3–6 mánaða útgjöld sem lausan sparnað í banka en það er langt í frá þannig hér.

Það hefur löngum verið ráðið hér á landi að kaupa fasteign til að spara vegna þess að það hafa ekki boðist aðrir verðtryggðir kostir, íbúðarhúsið er nefnilega verðtryggður kostur.