141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að nú er 1. umr. um málið að ljúka vildi ég nefna sérstaklega nokkur atriði sem varða það. Ekki er um að ræða neina varanlega lausn fyrir þennan hóp, ég held að við gerum okkur ágætlega grein fyrir því bæði ég og hæstv. fjármálaráðherra. Hún gæti hugsanlega róað einhverja en er hins vegar ekki varanleg lausn. Ég hef séð viðbrögð frá hópnum sem málið snýst um og hefur hann jafnvel verið svo harðorður að segja lausnina einhvers konar grín.

Hópurinn er fastur í húsnæði sínu. Að mörgu leyti er það fólk í þeim hópi sem glímir við svokallaðan skuldavanda, eins og Seðlabankinn hefur skilgreint hann, frekar en kannski greiðsluvanda. Það hefur ekki möguleika á því að stækka við sig þótt börn bætist við og þrengist um það í húsnæðinu, fólkið situr fast. Ef fjölgar um eitt barn mundi þetta kannski duga til að kaupa nýjan barnavagn.

Hitt er að ekki var gert ráð fyrir þessu á fjárlögum þannig að þótt hæstv. fjármálaráðherra hafi talað um að það sé einhver afgangur af vaxtabótum held ég að hún geri sér ágætlega grein fyrir því að ýmislegt hefur breyst hvað varðar forsendur fjárlaganna. Það var ekki afgangur miðað við hvernig fjárlög voru samþykkt síðast. Þetta þyrfti þá væntanlega að koma inn að einhverju leyti í tengslum við fjáraukalögin. Eins og er talað um hér verður ákvörðunin tekin í fyrsta lagi 15. janúar 2014 og töluvert er í það.

Þetta eru atriðin sem ég vildi nefna í lok umræðunnar og menn verða að hafa í huga. Við verðum að horfa til þess að finna varanlega lausn á vanda þessa hóps sem og annarra sem hafa orðið fyrir forsendubrestum hvað varðar verðtryggð húsnæðislán.