141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

Norðurlandasamningur um almannatryggingar.

600. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, á þskj. 1157. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um almannatryggingar sem gerður var í Bergen í júní á síðasta ári, en eins og kunnugt er á samstarf Norðurlanda á sviði almannatrygginga sér langa sögu. Það tók hins vegar allnokkrum breytingum þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlaðist gildi á 10. áratugnum, en reglur þess samnings um almannatryggingar gilda um norræna ríkisborgara sem starfa eða dveljast í öðru norrænu landi.

Sá samningur sem hér er um að ræða og þingsályktunartillagan fjallar um byggist að mestu á gildandi samningi frá árinu 2003 en gerðar hafa verið á honum nauðsynlegar breytingar vegna þróunar sem hafa orðið á sviði almannatrygginga innan Evrópuréttarins og einnig á löggjöf einstakra norrænna ríkja.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þennan samning og vekur athygli á því að samhliða þeirri þingsályktunartillögu sem hér er um að ræða, sem er þá fyrst og fremst heimild til ríkisstjórnarinnar til að fullgilda samninginn, liggur einnig fyrir þinginu frumvarp velferðarráðherra um lögfestingu á samningnum sjálfum. Hér er eingöngu um að ræða heimildina til að staðfesta samninginn fyrir Íslands hönd.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Framsögumaður með málinu er hv. þm. Þuríður Backman. Undir nefndarálitið rita, auk framsögumanns, Þuríðar Backman, Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Ragnheiður E. Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Ég legg að tillagan verði samþykkt.