141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er komið til 3. umr. frumvarp til laga um neytendalán sem var hér til talsverðrar umfjöllunar á síðustu vikum. Við 2. umr. boðuðum við að við mundum skoða sérstaklega nokkur álitamál og atriði. Eitt varðaði það þegar árleg hlutfallstala kostnaðar hækkar umfram það sem gert er ráð fyrir í upphaflegum samningi, með hvaða fyrirvara væri eðlilegt að neytanda væri gerð grein fyrir þeim breytingum. Var það niðurstaða umfjöllunarinnar að 30 dagar væru hæfilegt í því.

Þó kæmi til álita varðandi lengri lán að hafa lengri tíma, en það var niðurstaða nefndarinnar að rétt væri þá að skoða þann þátt málsins enn frekar þegar innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins um fasteignaveðlán verður til umfjöllunar á næstu mánuðum. Eðli málsins samkvæmt eru það lengri lánin og mætti þá enn auka rétt neytenda með því að lögfesta við innleiðingu þeirrar tilskipunar enn lengri frest í þeim tilvikum. En það væri framför og bót að því að festa nú þegar þessa 30 daga gagnvart tilkynningum til neytenda.

Síðan var nokkuð rætt um hvort málið hefði áhrif á veitingu námslána og þá skammtímafyrirgreiðslu sem neytendur fá vegna námslána í viðskiptabönkunum. Niðurstaðan var að svo væri ekki. Reglugerðarvald ráðuneytisins nær til þessara þátta og mun verða gætt að því í reglugerð að ekki verði breyting á því fyrirkomulagi sem þar hefur verið í gildi og það á ekki að valda námsmönnum neinum erfiðleikum við lántökur.

Ýmis fleiri atriði voru rædd við umfjöllunina sem koma fram í breytingartillögum á nefndaráliti meiri hlutans. Að þeim samþykktum leggur nefndin til að frumvarpið verði gert að lögum.