141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis samstarfið. Sú tilskipun sem hér er undir hjá Evrópusambandinu er hugsuð og sniðin að neytendalánum, fyrst og fremst ýmiss konar skammtímafjármögnun, kannski upp í bílalán og lán þegar fólk kaupir stærri heimilistæki, húsbúnað einhvern eða tjaldvagn eða hvað það nú kann að vera sem fólk fær fyrirgreiðslu til til skemmri tíma. Það var hins vegar ákvörðun Íslands að láta þessa löggjöf ná líka til fasteignaveðlána til lengri tíma og ég held að það hafi verið mikilvæg réttarbót og það sé betra að láta hana ná til þeirra lána jafnframt. Það væri hins vegar heppilegra að hafa sérstök ákvæði að minnsta kosti, ef ekki sérstaka löggjöf, um húsnæðislán. Þess vegna er fagnaðarefni að vinna er að hefjast við innleiðingu á tilskipun sambandsins um húsnæðislán, um fasteignaveðlánin sem fólk fær til íbúðakaupa, sem eru nokkuð annars eðlis. Þá væri hægt að taka tillit til þeirra þátta þar í.

Hvort það ætti að gera með sérstökum kafla þar um í þessum lögum og hafa sem hluta af neytendalánalöggjöfinni skal ég ekki útiloka, en ég held að sérstök ákvæði um lán til lengri tíma væru til bóta því margt er eðlisólíkt með skammtímalánum og langtímalánum eins og við vitum.