141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má út af fyrir sig taka undir að þetta væri verðugt forgangsverkefni en það breytir ekki því að sú löggjöf sem hér er verið að ganga frá er auðvitað miklu meira en skárra en ekkert. Þetta er mikilvæg og brýn réttarbót fyrir neytendur á fjármálamarkaði og í raun og veru löngu tímabær.

Eitt af þeim atriðum sem nefndin tók inn á milli umræðna og rétt er að halda til haga við lok umfjöllunarinnar er að neytendum verður meðal annars birt tíu ára meðaltal verðbólgu, þ.e. greiðsluáætlanir á grundvelli meðaltals aftur í tímann. Þetta er gert í upplýsingaskyni og á ekki að hafa áhrif á greiðslumatið á nokkurn hátt hjá viðkomandi lántökum heldur er þetta fyrst og fremst til þess að upplýsa fólk betur um það á hverju má eiga von í þessum efnum. Það er eitt af þeim mikilvægu framfaraskrefum sem hér er að finna ásamt fjöldamörgum öðrum. Meðal annars er verið að setja þak á uppgreiðslugjald sem hægt er að leggja á lántaka, en margir af lántökum Íbúðalánasjóðs standa einmitt frammi fyrir mjög háum kröfum um greiðslugjald frá þeim tíma þegar Framsóknarflokkurinn gerði þær breytingar sem hann gerði illu heilli á Íbúðalánasjóði á sínum tíma.