141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um breytingartillögu frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skrifum undir.

Við teljum að frumvarpið hafi batnað mikið í meðförum nefndarinnar. Við vorum upplýstir um að það mundi ekki raska hefðbundnum lánaviðskiptum fjármálafyrirtækja og neytenda þrátt fyrir auknar kvaðir um upplýsingaskyldu og greiðslumat, lánshæfismat og hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Þetta mundi ekki hamla viðskiptunum.

Síðan ræddum við nokkuð um námslán LÍN sem eru veitt eftir að menn hafa skilað árangri. Bilið er brúað með bankalánum. Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis kom fram við umfjöllun nefndarinnar um þessi lán að lánafyrirgreiðslur til námsmanna yrðu sérstaklega undanþegnar í reglugerð um lánshæfis- og greiðslugjald sem ráðherra setur á grundvelli 5. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Við höfðum af því áhyggjur að námsmenn mundu ekki uppfylla lánshæfis- og greiðslumat almennt.

Okkur var bent á það í umfjöllun nefndarinnar að fram hefur komið athugasemd frá Eftirlitsstofnun EFTA sem telur að framkvæmd verðtryggingar standist ákvæði tilskipunar hér á landi. Það er því ekki sérstök ástæða til að draga það í efa.

Við bendum á að hér á landi vanti illilega fjármálaráðgjöf og neytendavernd á fjármálamarkaði er ómarkviss og flókin. Hana skortir á mörgum sviðum. Við horfum upp á allt að því harmleiki hjá ýmsum fjölskyldum vegna þess að ekki er gætt að því að búseturétti fylgi veð og svo framvegis. Það mætti nefna fjölda dæma. Við teljum að það sé verkefni fyrir næsta kjörtímabil að bæta úr neytendavernd á fjármálasviði.

Við leggjum hér til smáleiðréttingu eða breytingu sem felst í því að bæta við þeim greiðslum af láninu sem lenda utan hefðbundinnar starfsævi þegar upplýst er um ýmsa þætti eins og þróun verðbólgu síðastliðin tíu ár, þróun ráðstöfunartekna síðustu tíu ár og svo framvegis. Ég hef orðið töluvert var við að fólk er að skuldsetja sig langt fram í ellilífeyrisaldurinn, t.d. fólk sem er um sextugt eða fimmtugt, segjum fimmtugt þegar það tekur lán, annuitetslán, verðtryggt með jöfnum föstum, taktföstum greiðslum, allt til níræðs. Síðasta greiðslan er þegar fólk er um nírætt. Þá eru menn búnir að vera á lífeyrisaldri í mörg ár. Eins og kunnugt er er lífeyrir töluvert miklu lægri en atvinnutekjur og þá getur fólk lent í verulegum vanda að greiða af lánunum þótt eignamyndunin sé kannski í lagi, en þetta er varasamt. Mér finnst rétt að menn viti af þessu, lántakendur séu upplýsir um þetta. Ég held að það sé ekki oft gert.

Þetta er breytingartillaga okkar. Ég vona að hún verði samþykkt þannig að upplýsingar um það hvernig lánið fellur innan starfsævinnar séu líka skoðaðar. Að öðru leyti teljum við að málið hafi batnað mjög mikið og þær breytingartillögur sem meiri hlutinn kemur fram um það séu flestar til bóta ef ekki allar, þannig að þetta er okkar afstaða til málsins.