141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að mikilvægt sé að mönnum sé ljóst hvernig menn sjá framtíðina varðandi háskólanám á Íslandi, að sjálfsögðu í heild. Það er líka mikilvægt að menn upplýsi og átti sig á um leið hver sé þeirra framtíðarsýn hvað varðar nám í landbúnaði, landbúnaðarháskólann og þau námskeið eða það nám sem tengist landbúnaðinum, matvælaframleiðslu á Íslandi. Það segi ég vegna þess að ég hygg að flestum sé ljóst að á komandi árum og áratugum er mjög mikilvægt að til sé á Íslandi öflugur landbúnaður og mikil þekking í þeirri grein sem byggir á góðu námi hvort sem það er á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Þar af leiðandi held ég að mikilvægt sé að komast að því hvernig þingheimur horfir á landbúnaðarháskólann til framtíðar. Ég segi það í samhengi við það sem ég sagði áðan um eftirspurnina sem ég held að verði eftir íslenskum landbúnaði á komandi árum og missirum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér þá þróun sem á sér stað í heiminum í dag, hvernig hann sér fyrir sér að við Íslendingar getum brugðist við henni meðal annars í gegnum nám landbúnaðarháskólans og um leið matvælatengt nám. Ég hygg að þau tækifæri sem við eigum í landbúnaði í dag, í matvælaframleiðslu, í að nytja landið, rækta landið, séu vannýtt og þess vegna hlýtur að vera eftirspurn eftir því að stjórnmálamenn hafi skýra framtíðarsýn á þann þátt náms okkar.