141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög ört vaxandi eftirspurn í heiminum eftir matvælum og orku. Íbúum veraldarinnar er að fjölga og það sem meira máli skiptir er að þeim fjölgar hratt sem teljast til neytenda í veröldinni, þ.e. þeim sem hefur verið lyft upp úr örbirgð og í flokk neytenda, einhvers konar millistétt. Það er tvennt sem vantar þar og það er orka og matur sem er það sem við Íslendingar eigum svo mikið af. Hvað varðar matvælaframleiðsluna og námið þar er ég hjartanlega sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að það er akkúrat þar sem við eigum svo mikinn vaxtarbrodd. Þess vegna auðvitað hlusta ég mjög eftir því þegar fulltrúar úr landbúnaðinum koma fyrir allsherjar- og menntamálanefndar og eru með varúðarsjónarmið og efasemdir varðandi frumvarpið hvað varðar menntunina í matvælafræðum og í landbúnaðarskólunum.

Þess vegna vakti ég athygli á því og ég veit að það hafa fleiri þingmenn gert. Mín framtíðarsýn er einmitt eins og ég lýsti hér áðan, að menn geti, og það er þannig, náð afburðaárangri í litlum sérhæfðum vísindastofnunum ef þær eru rétt fjármagnaðar, ef mikill metnaður býr að baki og ef aðstæður í viðkomandi landi bjóða upp á það. Þannig er það einmitt í jarðhitamálunum þar sem við eigum mikla uppsafnaða þekkingu, og auðvitað alla jarðhitastarfsemina, og í landbúnaðinum þar sem við eigum frábær tækifæri til framtíðar til að auka verðmæti og útflutning matvæla. Þegar (Forseti hringir.) saman fara vísindi og menntun og góðar náttúruauðlindir eru okkur allir vegir færir.