141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

(Forseti (ÁÞS): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í forsetastóli og klukkan í ræðupúlti ganga ekki algerlega í takt en það er klukkan í forsetastóli sem gildir.)

Virðulegi forseti. Nú virðist tíminn líða rétt. Ég get alveg skrifað upp á alla þá framtíðarsýn sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lýsti. Það sem ég held að sé mikilvægt fyrir landbúnaðarháskólana, t.d. á Hólum, er samstarf við til að mynda Háskóla Íslands. Ég hef áður lýst þeim vandkvæðum eða þeirri áhættu sem ég sé við samruna en það sem ég held að sé mest spennandi, kosturinn, er aftur á móti samstarf, samstarf afmarkaðra, þrengri menntastofnana við stórar vísindastofnanir eins og Háskóla Íslands. Þar eru auðvitað mörg fræðasvið og rannsóknir sem tengjast kannski ekki beint landbúnaði eða matvælaframleiðsluna en nýtast engu að síður. Það getur verið grunnur að miklum framförum þegar saman fara annars vegar vinna vísindamanna, þeirra sem vinna innan vébanda landbúnaðarháskóla, og hins vegar samvinna við aðra vísindamenn úr öðrum greinum. Það er einmitt þannig sem getur orðið til mjög frjótt samstarf og það getur verið mikilvægt. Ég bind miklar vonir við frumvarpið, að það auðveldi allt samstarf þvert á greinar þannig að samstarfið verði auðveldara þvert á vísindagreinarnar og þvert á faggreinarnar. Ég tel að það muni skila heilmiklu. Það er einmitt þannig sem okkur mun miða áfram, enn og aftur, með því að saman fari ríkulegar auðlindir, rétt eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lýsti, möguleikar sem við eigum varðandi matvælaútflutning annars vegar og hins vegar hugvitið. Mér hefur alltaf fundist umræða þeirra furðuleg, ég vil ítreka það, sem halda því fram að það sé einhver bölvun að hafa náttúruauðlindir. Ég held að það sé mikil einföldun vegna þess að ef til eru náttúruauðlindir og við aukum verðmæti þeirra jafnt og þétt með vísindastarfsemi og rannsóknum, (Forseti hringir.) ég endurtek sjálfan mig enn og aftur, eru okkur allir vegir færir.