141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um frumvarp þar sem verið er innleiða sambærilegt lagaumhverfi fyrir opinbera háskóla annars vegar og hins vegar samstarf á milli opinberra háskóla sem verður undir forustu Háskóla Íslands. Ég fagna því að verið sé að reyna að samræma lagaumhverfið en hef áhyggjur af því að jafnframt sé verið að reisa skorður við auknu samstarfi til dæmis opinbers háskóla og háskóla sem er sjálfseignarstofnun, eins og við höfum til dæmis í Borgarfirði, vegna þess að lagaumhverfi þeirra tveggja aðila sem keppa er ósambærilegt.

Virðulegi forseti. Það var einmitt reynsla okkar sem kenndum við Háskólann á Bifröst að ekki væri einu sinni hægt að eiga samstarf um námskeiðahald milli þessara tveggja stofnana í héraði vegna þess að laga- og reglugerðarumhverfi var svo ólíkt að ekki var nokkur leið að koma á sameiginlegu námskeiði og spara ríkinu kostnað við að tvítaka eða þrítaka námskeið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að nauðsynlegt sé að skoða þau tvö kerfi saman sem við erum með í landinu. Samkeppni felst ekki í því að aðskilja heldur líka að tryggja sambærilegt umhverfi fyrir starfsemina þannig að í raun sé samkeppni þar á milli. Ég sakna þess að ekki sé líka tekið á hinni stoðinni í háskólageiranum sem eru sjálfseignarstofnanir og hlutafélög án arðs eins og Háskólinn í Reykjavík er.