141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir athyglisverða ræðu með mörgum upplýsingum sem ég var ekki með á hreinu, þar með taldar upplýsingar um kostnaðinn við samstarfsnetið sem frumvarpið lögleiðir ef það verður samþykkt héðan. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að ráðuneytið virðist hafa gefist upp á sameiningu opinberu háskólanna og leggi áherslu á aukið samstarf sem mun kannski í framtíðinni leiða til sameiningar.

Ég tel að ástæðan fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra ákveður að stíga bara eitt skref í einu varðandi nauðsynlega sameiningu háskólastofnana sé sú að það eigi eftir að taka ákvörðun um á hvaða forsendum eigi að sameina. Það er erfitt að taka ákvörðun um það vegna þess að forsendurnar eru mjög ólíkar. Við getum haft forsenduna um að vera þurfi samskonar rekstrarform, eins og forsendan hefur verið við sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík. Það getur verið forsendan um að háskólar þurfi að vera á sama svæði vegna þess að það minnkar útgjöld þeirrar stofnunar við að flytja kennara og nemendur á milli staða. Það getur verið forsenda um að skólarnir tveir séu með sambærilegt námsframboð. Það getur líka verið forsendan um að skólarnir tveir séu með ólíkt námsframboð en kenni mörg sameiginleg námskeið, (Forseti hringir.) eins og t.d. Háskólinn á Bifröst og landbúnaðarháskólinn hvað varðar viðskiptagreinar beggja skólanna.