141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður segir, þótt ég vilji kannski ekki taka undir að gefist hafi verið upp á sameiningu háskólanna er þetta rétt ábending. Ég hefði talið eðlilegt í ljósi allrar umræðunnar um niðurskurð og þær upplýsingar sem komu til fjárlaganefndar um að við mættum ekki skera of mikið niður því að þá færum við yfir ákveðna þröskulda, að við færum í vinnuna við að meta og skoða hvað væri best til að verja menntakerfið. Það var auðvitað hugsunin, að setja jafnmikla peninga í það en stýra því öðruvísi þannig að við gætum varið menntakerfið, ef ég nota það orð.

Maður hefði viljað fá niðurstöðurnar miklu fyrr þar sem kom fram hverjir eru kostir og gallar við hlutina, eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Á hvaða forsendum á að sameina? Það er auðvitað fyrsta spurningin. Eigum við að binda okkur við opinbera háskóla eða einkarekna háskóla? Eigum við bara að stíga skrefið og skoða málið? Maður hefði vilja vera með í höndunum, klárt og klippt, kosti og galla og hvað væri æskilegt að gera.

Ég kom inn á í ræðu minni að ég hef ekki forsendur og þekkingu til að meta það. Það situr greypt í huga mér þegar þær ábendingar komu frá Háskóla Íslands að hægt væri að spara 900 milljónir bara yfir flugbrautina. Auðvitað spyr maður sig af hverju er verið að kenna sömu greinarnar sitt hvorum megin við flugbrautina eins og stundum er sagt, það blasir við.

Samstarfsnetið var kynnt sem tveggja ára tímabundið verkefni þegar það var sett á í upphafi. Þegar maður spurði hvort setja ætti 300 milljónir í það meðan verið væri að skera niður alls staðar í heilbrigðisþjónustunni var svarið að verkefnið væri tímabundið og það mundi spara. Niðurstaðan er önnur. Af hverju sparast ekkert við það? Nú er það orðnar 600 milljónir og fastur kostnaður 50 milljónir á ári. Það verður auðvitað að fara í gegnum.