141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður tengjumst bæði Norðvesturkjördæmi en þar eru þrír háskólar með ólík rekstrarform. Ég hefði viljað sjá hluta af því fjármagni sem fór í samstarfsnet opinberu háskólanna eyrnamerkt samstarfi háskólanna þriggja í Norðvesturkjördæmi. Ég tel að þannig hefði verið hægt að finna leiðir til að a.m.k. styrkja rekstrargrundvöll Háskólans á Bifröst sem er í miklum fjárhagsörðugleikum, eins og hv. þingmaður veit, og jafnvel spara ríkinu einhvern kostnað við háskólanámið sem er í boði í Norðvesturkjördæmi.

Hvað varðar einkarekna háskóla eða háskóla sem eru með rekstrarformið sjálfseignarstofnanir innheimta þær stofnanir skólagjöld. Til hvers eru skólagjöldin notuð? Í fyrsta lagi er þau notuð til að fjölga verklegum tímum vegna þess að, eins og hv. þingmaður benti á, framlag ríkisins dugir ekki til að tryggja verklegt nám. Síðan eru skólagjöldin notuð til að bæta upp fjármagn sem ríkið veitir til að fjármagna rannsóknir kennara. Það var talað um að t.d. við Háskólann á Bifröst dugir framlag ríkisins til rannsókna sem skólinn fær ekki nema til að fjármagna 20% vinnuskyldu kennara við rannsóknir. Sem dæmi er sambærilegt vinnuskylduhlutfall 40% hjá Háskóla Íslands. Það skekkir auðvitað samkeppnisstöðu einkarekinna skóla þegar kemur að því að bjóða í eða reyna að ná í góða kennara. Það er spurning hvort eigi að innheimta skólagjöld til að fjármagna fleiri verklega tíma og rannsóknarskyldu kennara.