141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má öllum vera ljóst að þær stofnanir sem hér um ræðir eða þeir skólar eða aðrir skólar geta að sjálfsögðu ekki sinnt verkefnum sínum til framtíðar ef fjármagn er ekki fyrir hendi. Ef landbúnaðarháskólunum er ætlað að starfa áfram og sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna verða menn að sjálfsögðu að koma með fjármuni inn í það gat sem viðurkennt er að er til staðar.

Ríkisvaldið verður vitanlega að láta þau framlög fylgja sem þarf en það hlýtur að vera spurning hvort verið sé að ýta málinu á undan sér í von um að hægt sé að gera eitthvað annað, sameina skólana eða eitthvað slíkt. Þá er í raun verið að draga úr getu skólanna til þess að standa undir merkjum ef verið er að — ja, ég ætla að leyfa mér bara að segja það, svelta þá vísvitandi, vegna þess að þetta hefur legið svo lengi fyrir. Er verið að reyna að ýta skólunum út í sameiningar eða einhvers konar umhverfi sem barist hefur verið gegn eða sem menn hafa sýnt lítinn áhuga?

Þess vegna er mjög mikilvægt að við leggjum áherslu á að lagðir verði til þeir fjármunir sem viðurkennt er að eru nauðsynlegir. Við hljótum þá um leið að spyrja hvort yfirlýsing um að setja þá fjármuni í skólana sem þarf sé þá ekki merki um að menn ætli sér að láta þessa skóla starfa til frambúðar og sinna því hlutverki sem þeir munu augljóslega hafa í heimi þar sem er vaxandi eftirspurn eftir t.d. matvælum og þeim rannsóknum sem þar eru stundaðar.