141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á nýja þætti varðandi frumvarpið. Vil ég þá sérstaklega nefna nauðsyn þess að aðgreina skólana með öðrum hætti en að þeir séu opinberir eða einkaskólar, sem sagt að taka upp hið norræna eða alþjóðlega kerfi þar sem er gerður greinarmunur á mismunandi háskólum, þ.e. á „universities“ og „colleges“ á ensku.

Vandamálið við þá aðgreiningu er að hún er oft notuð til þess að greina á milli góðra skóla og verri skóla, sem sagt að „universities“ séu betri skólar en „colleges“. En það er ekki endilega alltaf þannig og það sést mjög vel þegar maður skoðar „ranking“-lista fyrir skóla. Þar inni á milli eru skólar sem bera ekki heitið háskóli eða „university“ en skora samt mjög hátt. Sérstaða þessara skóla er einmitt að þeir hafa farið út í nýjungar, annaðhvort í námsframboði, blanda saman nýjum greinum, eða þá að þeir reyna að umbreyta fræðigreininni, koma með annars konar áherslu innan fræðanna og kenna út frá henni.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að við eigum að leggja þá áherslu á þá aðgreiningu, þ.e. að mismunandi sérstaða felist í nafngiftinni miklu frekar en að um séð ræða einhvern gæðastimpil á þessari aðgreiningu.