141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru erfiðar spurningar og er hægt að halda langar ræður um þær. En ég held t.d. að það að kenna lögfræði á fjórum stöðum í 320 þúsund manna landi sé svolítið til mikið af því góða. Ég tel að það eigi að vera tveir til þrír háskólar í landinu og með því að styrkja háskólana og form þeirra betur geti þeir hæglega verið með deildir úti á landi þar sem er nákvæmlega sama kennsla. Það er t.d. hægt að hugsa sér að grunnnámið í þeim fögum sem eru vinsælust og algengust sé nákvæmlega það sama og að jafnvel sömu kennarar sinni því.

Ég held að við byggjum aldrei upp háskólakerfi í landi sem skilar af sér fólki með góða menntun og er vel búið undir leik og störf nema við höfum það sem aðalmarkmið. Við megum aldrei hafa það sem markmið að það sé gott fyrir staðina að hafa skóla þar og skapi störf þar og annað slíkt. Við getum ekki haft þetta eins og atvinnubótavinnu — það er kannski heldur djúpt í árinni tekið að tala um atvinnubótavinnu, en atvinnusjónarmiðin geta varla talist mjög þung í umræðunni.

Aftur á móti með því að styrkja háskólana sem mest, fækka þeim, stækka þá og styrkja, gætu verið deildir úti á landi sem bjóða upp á mjög gott nám.

Hvað varðar þessa tvo skóla, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, sem ég hef verið prófessor við, þá eru þeir í eðli sínu ólíkir. Ég tel reyndar að það fari ágætlega á því að þeir starfi hvor í sínu lagi og hugsanlega verði þriðji háskólinn á Akureyri, en þetta kallar á miklu meiri umræðu.