141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[10:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Ég verð eiginlega að viðurkenna, áður en ég fer að ræða formlega um frumvarpið, að þar sem ég hef unnið að skólamálum árum saman og hef síðan orðið vitni að þeim vinnubrögðum sem við viðhöfum í þinginu langar mig aðeins að bera það saman.

Það er alveg klárt og kvitt að í þinginu segir að öll mál sem áætlað er að ræða á lokadögum þingsins eiga að koma inn fyrir 1. mars. Hingað koma mál frá ríkisstjórninni löngu eftir tilsettan tíma. Þau er tekin inn með afbrigðum og ætlast til að þeim sé lokið á þessu þingi. Ég veit ekki hvernig það mæltist fyrir í skólum ef nemendum væri ætlað að skila ritgerð, verkefnum eða mæta til prófs á ákveðnum degi, en þeir tækju sér það bessaleyfi að skila þegar þeim hentaði og óskuðu eftir því að kennarinn tæki við verkefnum þegar nemandanum hentaði að skila og að það gilti til einkunna á sama hátt og hjá þeim sem ætíð skilar á réttum tíma. Ástandið hér í þinginu, það ófremdarástand, mundi hvergi nokkurs staðar líðast, ekki á nokkrum öðrum vinnustað.

Virðulegur forseti. Mér datt í hug þegar ég settist í forsetastól til að setja þennan fund að kannski hefði verið ágætt að setja fundinn og segja svo einfaldlega: Þessum fundi er slitið. Ekki verður boðað til næsta fundar með dagskrá fyrr en þingmenn hafa komið sér saman um hvernig ljúka eigi þessu þingi. Það sem er að gerast hér og nú er hvorki þinginu, stjórnmálamönnum né öðrum til framdráttar. Þetta er fáránleg vinnustaða sem fólki er boðið upp á og algjörlega ljóst að henni verður einhvern veginn að breyta.

Ég ætla nú að snúa mér að frumvarpinu sem er til umræðu.

Ég vil í upphafi greina frá því að ég er frekar hlynnt breytingartillögunni eða þeim breytingum á frumvörpunum sem liggja fyrir, eða ekkert frekar, ég er hlynnt þeim. Það hefur löngum verið mín skoðun að allir skólar og allt skólahald eða skólamál eigi að heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra. Verið er að færa Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Hólaskóla undir opinber lög um háskóla þannig að allir opinberir háskólar á Íslandi búi við sama umhverfi. Þar með falla lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, brott og auk þess er svokallað háskólanet lögfest með frumvarpinu.

Mig langar að gera að gera háskólanetið aðeins að umtalsefni. Ég held að þegar það var sett á og fjármagn veitt til þess hafi það virkilega verið af hinu góða vegna þess að með því háskólaneti og samstarfsneti er nemendum í háskólum hvar sem er á Íslandi gefið tækifæri til að sækja nám innan annarra háskóla. Það getur falið tvennt í sér: Að nemendur auki við færni sína og þekkingu og að þeir geti flýtt námi sínu ef ekki er boðið upp á öll valfögin innan háskólans sem nemandinn er skráður í. Þar að auki gerir samstarfsnetið eða háskólanetið þá kröfu til háskólanna að þeir samræmi innan sinna vébanda skóladagatöl, kennsluskrár og annað í þeim dúr með einum eða öðrum hætti. Ég held, virðulegur forseti, að í okkar fámenna landi sé slíkt samstarf háskólanna alltaf, og verði alltaf, af hinu góða. Það gefur okkur líka tækifæri til að sameina háskóla.

Sú setning, að sameina háskóla, mun alltaf fara fyrir brjóstið á mörgum og margir óttast að missa spón úr aski sínum. Ég bið fólk um að taka það ekki svo að verið sé að tala um að leggja eitt né neitt niður. Ég held hins vegar, og er þeirrar skoðunar, að háskólar geti haft starfsstöðvar vítt og breitt um landið þótt háskólarnir séu tveir eða þrír. Það þýðir ekki að við fellum niður þá háskóla sem er starfandi vítt og breitt um landið en við gætum hins vegar sameinað háskólana á einhvern hátt og þannig aukið fjármagn til stærri skóla og drýgt betur það fjármagn sem fyrir er. Það er ljóst að eins og hlutunum er háttað í dag veitum við samkvæmt OECD mun meiri fjármuni til grunnskólanna en nokkurn tímann til framhaldsskóla og háskóla og það þurfum við að skoða.

Ég er hins vegar mjög meðvituð um að þar sem háskólar starfa í byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins hafa þeir skapað ákveðna festu og sérstöðu og eru byggðarlögunum mikilvægir. Starfsstöðin getur að sjálfsögðu verið áfram þar þótt háskólarnir verði sameinaðir að einu eða öðru leyti.

Virðulegur forseti. Það eru kannski ekki tillögur í frumvarpinu um neitt slíkt heldur er verið að færa háskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum undir lög um opinbera háskóla og þar með leggja niður búnaðarfræðslulögin, nr. 57/1999.

Það sem er líka í frumvarpinu og þarf svolítið að skoða er að í báðum landbúnaðarháskólunum, á Hvanneyri og á Hólum, eru reknar starfsmenntabrautir. Ég held að fyrir landbúnaðinn og fyrir landbúnaðarfræðslu sé afar mikilvægt að slíkar starfsmenntabrautir verði reknar áfram, hvort heldur er á sviði hestafræði, garðyrkju, búfræði eða margra annarra greina, og þá verður að gera samning á milli menntamálaráðuneytisins og landbúnaðarháskólanna um þær starfsbrautir eða starfsmenntabrautir á framhaldsskólastigi innan háskólanna. Starfsmenntabrautunum verður að ljúka með gráðu eða prófi sem veitir réttindi til að starfa í þeim greinum sem eru kenndar þarna.

Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég held að mikilvægt sé að starfsmenntabrautir við þá háskóla verði virtar og virkar af því að við getum ekki beint öllum í langskólanám eða háskólanám. Það er hvorki hagkvæmt né skynsamlegt. Margar styttri brautir sem gefa einstaklingum réttindi til starfa eru ekki síður þjóðhagslega hagkvæmar en langskólanám.

Ég legg því áherslu á að þarna verði verulega vel staðið að málum, það mun skipta máli. Það stendur í frumvarpinu sjálfu, að ég held í athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Lögin um búnaðarfræðslu gera Landbúnaðarháskólanum að starfrækja búnaðarnáms- og starfsmenntanámsbrautir á framhaldsskólastigi, en námsbrautir þessar nýtast meðal annars sem aðfararnám að háskólanámi.“

Svo mörg voru þau orð. Það mun væntanlega verða áfram þótt sérsamningur verði gerður um starfsmenntabrautirnar þar sem lög um búnaðarfræðslu falla brott.

Það stendur líka, virðulegur forseti:

„Um þessar námsbrautir verður gert samkomulag þar sem meðal annars verður samið um námsframboð og fjármögnun á grundvelli laga um framhaldsskóla.“

Ég held að mjög mikilvægt sé að hafa það í huga og að líka verði að skoða að slíkar starfsmenntabrautir eru að öllu jöfnu dýrari en almennar bóknámsbrautir. Við megum ekki falla enn einu sinni í þá gryfju að telja okkur ekki hafa fjármagn til að standa við slíkar starfsmenntabrautir. Eins og ég sagði áðan eru þær ekki síður mikilvægar og þjóðhagslega hagkvæmar en háskólarnir og háskólanám.

Þess vegna, virðulegur forseti, er ég pínu uggandi yfir setningu frá fjárlagaskrifstofunni. Á bls. 10 í frumvarpinu sjálfu segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að umgjörð landbúnaðarháskólanna breytist vegna framangreinds …“

Virðulegur forseti. Það er ljóst. Síðan segir, og það veldur áhyggjum:

„… en ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna þessa, nema e.t.v. vegna búnaðar- og starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi.“

Þessar setningar frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis vekja með mér ugg vegna þess að mér finnst strax sleginn sá varnagli að hugsanlega munum við ekki auka fjárframlög. Verði frumvarpið að lögum bið ég þá sem taka við hér að loknum kosningum að hafa það í huga og einnig þjóðhagslega hagkvæmni þess að starfsmenntabrautir nái að styrkjast og festa sig í sessi og ekki sé horft til þess að spara á þeim vettvangi. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra.

Virðulegur forseti. Svo mörg voru þau orð um starfsmenntabrautir innan landbúnaðarháskólanna eftir að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falla brott við samþykkt þessa frumvarps.

Það er annað atriði sem mig langar að gera athugasemdir við eða velta upp hér. Ég átta mig satt best að segja ekki á 4. gr. þar sem allt í einu eru talin upp þau starfsheiti sem tíðkast við háskóla og þá erum við að tala um latneska orðið universitet. Þar eru prófessorar, dósentar, lektorar og stundakennarar en þeir eru aldrei fastráðnir eins og heitið ber með sér. Í 4. gr. er allt í einu komið starfsheitið sérfræðingur. Hvað er það? Hvers konar starfsheiti við háskóla er sérfræðingur? Hvernig er það að hér stendur, með leyfi forseta:

„2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Þeir sem bera starfsheitin prófessor, dósent, lektor og sérfræðingur skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði …“

Svo kemur, virðulegur forseti:

„… staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla.“

Það er tvennt sem ég ekki alveg átta mig á, það er orðið sérfræðingur, hvernig sérfræðingur getur verið starfsheiti, og síðan er það orðið eða. Ef þú ætlar að verða prófessor, dósent eða lektor, í það minnsta prófessor, þarf doktorspróf frá viðurkenndum háskóla og álit dómnefndar. Ég er að velta fyrir mér hvort orðið eða geti verið ákveðin prentvilla eða hreinlega hugsanavilla því til þess að fá viðkomandi starfsheiti á fræðasviði þarf aðili sem starfar innan háskólans að vera með doktorspróf og það þarf að vera staðfest með áliti dómnefndar að þrátt fyrir doktorsprófið sé sá aðili hæfastur til að gegna embættinu.

Virðulegi forseti. Ég er örlítið uggandi yfir 4. gr. og sérstaklega er ég uggandi yfir orðinu sérfræðingur. Hvers konar starfsheiti er sérfræðingur? Þetta er nýyrði sem verður til af því einstaklingar eru sérfræðingar í hinu og þessu og geta eiginlega orðið sérfræðingar í öllu og titlað sig sem sérfræðing, sérfræðingur í ráðuneytinu til dæmis. En sérfræðingur í hverju? Og við hvað starfar umræddur aðili? Hvaða menntunar hefur hann notið? Ég held að örlítið þurfi að skoða hvort og hvað við eigum við, hvort orðið sérfræðingur eigi heima þarna og hvort ekki þurfi að skoða samtenginguna eða, hvort hún eigi við eða hvort önnur samtenging hafi átt að standa þarna. Í mínum huga er það svo að enginn getur orðið prófessor við háskóla nema hann hafi lokið doktorsprófi og er síðan metinn hæfastur af dómnefnd til að gegna embætti á því fræðasviði sem hans menntun liggur.

Það virðist sem við þurfum að skoða það enn frekar. Við erum hins vegar að ræða málið við 2. umr. og það getur hæglega farið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. og 4. gr. þá skoðuð frekar með tilliti til þeirra athugasemda sem falla hér af minni hálfu og féllu líka í gær af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar sem og, að mig minnir, hv. þm. Lilju Mósesdóttur.

Í frumvarpinu er líka önnur breyting á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, sem tengist háskólafundum. Í lögunum segir að allir þeir sem sitja þar skuli kjörnir til tveggja ára. Það hefur hins vegar komið í ljós að þar sem fundirnir eru samráðsvettvangur háskólasamfélagsins og nemendur í háskólum eiga aðkomu að þeim kjósa þeir árlega til félag sinna. Því þætti eðlilegt að stúdentar væru kjörnir til árs í senn miðað við hvernig mál skipast í kosningum þeirra innan háskólans ár hvert.

Virðulegur forseti. Frumvarpið mun væntanlega ganga aftur til nefndar að lokinni 2. umr. Ég legg áherslu á að nefndin skoði þá þætti sem hafa verið nefndir, ekki bara af þeirri sem hér stendur heldur einnig af öðrum þingmönnum, og fari frekar yfir þá og sérstaklega 4. gr.