141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[10:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, og varðar sérstaklega landbúnaðarháskólana og samstarf opinberra háskóla.

Ég ætla reyndar í upphafi ræðu minnar, af því við erum að ræða þetta mál á laugardagsmorgni á fyrsta degi eftir að þingstörfum ætti að vera lokið samkvæmt starfsáætlun þingsins, að gera athugasemd við það vinnulag sem hér hefur verið viðhaft síðustu daga og vikur. Ég get þar af leiðandi tekið undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um að skynsamlegast væri að gera hlé á þessari umræðu og setjast yfir það hvernig menn ætla að ljúka þingstörfum í lok kjörtímabilsins í aðdraganda kosninga. Hér hefur komið inn hvert stórmálið á fætur öðru frá ráðuneytunum til 1. umr. þrátt fyrir að öllum megi vera ljóst að samkvæmt starfsáætlun hefði þinginu átt að ljúka í gær.

Hér ræðum við í 2. umr. mál sem beðið hefur verið eftir og hefði þess vegna getað verið komið inn miklu fyrr. Það hefði verið skynsamlegt að setjast yfir það og ræða miklu betur og að við hefðum haft tíma til að fara almennilega yfir það. Ég kem aðeins inn á það í máli mínu hvar ég tel að við þurfum að taka á í skólakerfinu, þar á meðal í hinu opinbera háskólakerfi.

Það sem hér hefur verið að gerast hefur meðal annars komið fram í umsögnum fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þær hafa verið að lengjast, orðið umfangsmeiri, skilið eftir fleiri spurningar sem ekki hefur verið svarað um hvernig eigi að standa undir kostnaði og hvernig útgjöld einstakra frumvarpa eigi að samrýmast þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hafa jöfnuð í ríkisfjármálum og að hægt sé að reka ríkiskassann með hagnaði, að minnsta kosti ekki með tapi eins og verið hefur á öllu kjörtímabilinu. Þetta frumvarp er svo sem ekki það versta hvað það varðar. Það eru þó, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, nokkur útgjöld sem falla til vegna þess og ég kem aðeins inn á það á eftir.

Frú forseti. Við höfum á liðnum árum velt því mikið fyrir okkur hér á Íslandi af hverju skólakerfið okkar skilar ekki betri árangri. Þá er ég að tala um allt skólakerfið og hvernig við deilum fjármagni til þess og hvort það fjármagn skili sér með réttum hætti. Við höfum lengt grunnskólann. Við höfum samhæft leikskóla og grunnskóla og við höfum tekið mjög langa umræðu um það hvort rétt sé að stytta framhaldsskólann. Við höfum tekið margra ára umræðu um hversu mikilvægt það er að auka starfsmenntanám, verknám og nám sem byggir á raungreinaþekkingu til þess að standa undir stigvaxandi eftirspurn atvinnulífsins eftir fólki með tækni-, verk- og hönnunarmenntun.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að þótt í þessu frumvarpi sé verið að fjalla um lítinn, afmarkaðan hluta kerfisins, kemur það einmitt inn á þetta atriði. (BJJ: Hárrétt.) Varðandi starfsmenntanámið, í þessu tilviki búnaðarnám, garðyrkjunám og annað nám er tengist búnaðarfræðslu sem hefur verið rekið bæði á Hvanneyri og á Hólum, virðist manni að þar hafi verið ákveðin samlegðaráhrif, það má til að mynda sjá í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um þetta frumvarp. Fjármunir sem veittir hafi verið til háskólastigsins hafi í raun og veru nýst á starfsmenntasviðinu. Ég fullyrði og ég þekki til þess að nemendur sem hafa farið á starfsmenntabraut á Hvanneyri, hafa frekar farið í háskólanám en ella í framhaldinu, kannski einmitt vegna þess að þeir voru á Hvanneyri í tengslum við háskólamenntun.

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar stendur að ekki sé komin nein áætlun um það frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu hvernig eigi að standa við starfsmenntanámið sem verður væntanlega dýrara en það hefur verið í dag, ef það stendur sjálfstætt.

Ég set því hér fram, virðulegi forseti, efasemdir um að það sé örugglega rétt og skynsamlegt að aðskilja að fullu háskólanám og starfsmenntanám í framhaldsskólum. Það hefur verið gríðarlegt brottfall úr framhaldsskólum og síðustu ár hefur verið vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks. Til að koma fólkinu aftur inn í skólakerfið höfum við verið að nýta bæði starfsmenntabrautir og frumgreinabrautir sem eru í raun og veru ekkert annað en framhaldsskólabrautir, bæði við Háskólann á Bifröst, Háskólann á Akureyri, Keili og fleira í þeim dúr. Við erum sem sagt með þetta á talsvert gráu svæði í dag. Mér finnst að þetta frumvarp taki ekki algjörlega á þessu. Ég er heldur ekki viss um að sú leið sem við höfum verið að fara sé rétt. Ég ætla reyndar að halda því fram að eitt af því besta sem ríkisstjórnin hefur þó gert á þessu kjörtímabili er hvernig hún hefur staðið að því að koma ungu fólki, atvinnulausu fólki, fólki sem var dottið út úr skólakerfinu, aftur í nám. Ég held að margt hafi verið vel gert þar, svo ég hrósi nú hæstv. ríkisstjórn svona einu sinni úr ræðustól hér í lok kjörtímabilsins. Ég hef reyndar gert það áður hvað þetta snertir.

Ég held að þessi umræða sé ekki tæmd. Þess vegna hefði þetta frumvarp þurft að koma fyrr fram, þurft að fá meiri tíma og umfjöllun í nefndinni með víðtækari skírskotun til skólakerfisins í heild sinni, hvort við séum að ná því fram sem við viljum, nýta sem best þá fjármuni sem við setjum í skólakerfið og ætlumst til að komi út úr því.

Ég held að tengsl atvinnulífsins við skólakerfið séu nauðsynleg. Ég veit að þeir sem óttast það hafa tekið dæmi um tengsl ákveðinna greina atvinnulífsins inn í háskólakerfið og hafa haldið því fram að þau séu orðin mjög óeðlileg. Ég held að við verðum að þora að taka þá umræðu og ræða í botn. Háskólar sinna vissulega grunnnámi og grunnrannsóknum sem hafa hugsanlega ekkert hagnýtt gildi, að minnsta kosti ekki á þeim tímapunkti þegar þær grunnrannsóknir fara fram. Það er eitt af því sem gerir háskólanám og rannsóknir á háskólastigi svo áhugaverðar. Það veit enginn til hvaða hagnýtu verkefna slíkar grunnrannsóknir leiða nákvæmlega. Það mega ekki eingöngu vera hagnýtar rannsóknir með beinum tengslum við atvinnulífið. Við þurfum að hafa hvort tveggja, en þetta þarf líka að fjármagna. Það þurfa líka að vera þau tengsl til staðar að atvinnulífið viti hvað er að gerast á háskólastiginu svo það geti nýtt sér þá þekkingu sem þar er að verða til.

Ég ætla að nefna eitt dæmi í þessu samhengi. Nú eru tvö íslensk fyrirtæki að hefja olíuleit á Drekasvæðinu. Mér vitanlega sinnir enginn háskóli á Íslandi því verkefni á nokkurn hátt. Þá er ég ekki að tala um hvort við finnum olíu eða ekki heldur því verkefni í sjálfu sér að olíuleit er hafin á Drekasvæðinu, fyrst á Íslandshlutanum, væntanlega í framhaldinu á hluta Norðmanna, síðan á Jan Mayen-svæðinu og austan við Grænland og reyndar vestan við Grænland líka. Ísland liggur þannig landfræðilega að þetta gæti orðið mjög áhugaverð atvinnugrein á Íslandi, þ.e. þekkingin í kringum olíuleit, þjónustan við olíuleit, djúpboranir og allt sem þessu fylgir. Þarna er gríðarlegt verk að vinna og hægt að byggja upp miklar atvinnugreinar. Það hefur ekkert með það að gera hvort olía finnist einhvern tímann. Það skapast þekking á umhverfissviði og víðtækari þekking á borunum en við höfum í dag vegna jarðvarmavirkjana.

Ég held að það sé mjög aðkallandi að háskólarnir á Íslandi setji af stað starfsbrautir, sérbrautir og sérnám er varðar olíuleit og hugsanlega olíuvinnslu, en sérstaklega olíuleit. Ég nefni í því samhengi að Færeyingar hafa núna um tíu ára skeið leitað eftir olíu. Þeir hafa borað einar átta holur og enga fundið, en þar er þjónustan við olíuleitariðnaðinn og þekkingin í kringum hann orðin önnur stærsta atvinnugrein Færeyinga. Ég held að hér sé verk að vinna. Þarna eru augljós tengsl atvinnulífs við háskólann.

Ég ætla að nefna annað sem vissulega hefur töluvert verið rætt og að nokkru leyti get ég tekið undir það að í svo litlu landi sé hálfgalið að hafa sjö háskóla. Menn hafa leitað eftir samlegðaráhrifum, annars vegar af sameiningu og hins vegar samvinnu. Þess vegna tek ég mjög undir þau áform í þessu frumvarpi um að lögfesta samstarfsnet opinberra háskóla. Það kostar einhverja peninga samkvæmt mati fjárlagaskrifstofunnar, ekki stórkostlega, en engu að síður einhverja. Ég held að þetta sé mjög skynsamlegt skref. Það kemur reyndar fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að þeir efast um að nægileg hagræðing felist í þessu og benda á skýrslu vísinda- og tækniráðs um að veikleikar háskólastigsins felist í of mörgum og fámennum háskólum. Að mati ráðuneytisins liggur ekki fyrir með nægilega skýrum hætti hvernig samstarfsnet opinberu háskólanna muni nýtast til að ná sambærilegri hagræðingu og hlytist af fækkun háskóla, sérstaklega í ljósi mikils tilkostnaðar við innleiðingu og rekstur samstarfsnetsins að mati fjárlagaskrifstofunnar.

Hér ætla ég þó að segja það að uppbygging háskóla á landsbyggðinni skiptir gríðarlega miklu máli. Ég nefni sérstaklega þau gríðarlegu áhrif sem Háskólinn á Akureyri hefur haft á því svæði. Þessi uppbygging skiptir ekki bara máli í byggðalegu tilliti, ef menn eru eingöngu að velta fyrir sér að setja upp háskóla til að halda uppi byggð, heldur einnig vegna þeirrar staðreyndar að mjög víða á landinu er framboð á menntun of fábrotið. Menntunarstigið er þar af leiðandi enn fábrotnara og það hefur síðan ekki batnað við það að við höfum í 150 ár aðeins haft eina byggðastefnu í landinu; að færa allar stofnanir ríkisins á einn stað, á höfuðborgarsvæðið og byggja Reykjavík upp sem höfuðborg. Það hefur þýtt að höfuðborgarsvæðið hefur sogað til sín allt háskólamenntað fólk. Það eru engin slík störf úti á landsbyggðinni. Þannig er þetta ef við lítum í baksýnisspegilinn. Þessu hefur verið reynt að snúa við á liðnum árum því að menn hafa gert sér ljóst að besta byggðastefnan, besta leiðin til að byggja upp öflugt samfélag í byggðunum er að hafa eins fjölbreytt atvinnulíf þar og hægt er, þar á meðal störf fyrir háskólamenntað fólki.

Því hafa Háskólinn á Akureyri og síðan Hólaskóli, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst haft gríðarleg áhrif hvað þetta varðar. Það er staðreynd að í þessa skóla hefur frekar leitað fólk annaðhvort af landsbyggðinni eða fólk sem getur betur hugsað sér að búa á landsbyggðinni. Þetta er nákvæmlega sama reynsla og á Norðurlöndunum. Í Danmörku er til að mynda mjög öflugur háskóli sem hefur ævinlega verið rekinn í Árósum og reyndar í Óðinsvéum líka. Þar hafa menn eins og hér verið að sameina háskóla. Sjálfur var ég í landbúnaðar- og dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn sem er búið að sameina við Kaupmannahafnarháskóla. Sá skóli er með starfsstöðvar víða um Danmörku vegna þess að nám í landbúnaðarfræðum og dýralækningum krefst mikils landrýmis, krefst þess að hafa skepnuhald, á nákvæmlega sama hátt og gerist hér með búnaðarskólana, bæði á Hólum og Hvanneyri.

Ef við snúum okkur að garðyrkjunámi þarf það auðvitað helst að vera á svæði þar sem garðyrkjan er. Mér finnst það ágalli á frumvarpinu að ekki sé tryggt með skýrari hætti og ekki sé fjallað nánar um það hvernig megi tryggja það að tilraunastöðin sem rekin er á vegum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri að Reykjum í Ölfusi þar sem garðyrkjan hefur komið að því að byggja upp öfluga ræktunarstöð, rannsóknarstöð með tilheyrandi dýrum búnaði, haldi áfram því að þar er starfsemi. Hún dregur að sér fólk sem hefur áhuga á því að mennta sig. Slík starfsemi hækkar menntunarstig viðkomandi svæðis og eykur líkurnar á því að fólk sem vinnur í greininni eða hefur áhuga á henni mennti sig í þessum fræðum. Það mundi ef til vill ekki treysta sér til þess ef það þyrfti að fara um lengri veg og minni möguleiki væri á að halda vinnu sinni á sama tíma. [Kliður í þingsal.]

Þessa þætti, frú forseti, þarf alla að skoða. Ég er frekar jákvæður gagnvart frumvarpinu en tel að það hefði þurft miklu meiri vinnu og það hefði kannski verið rétt að velta einnig fyrir sér þeim áttum sem ég hef nefnt.

Ég ætla að nefna Suðurland. Þar var stofnað fyrir nokkrum árum svokallað Háskólafélag Suðurlands. Sveitarfélögin komu að stofnun þess, ég þekki það þar sem ég var þá starfandi á sveitarfélagastiginu. Það mætti líka nefna Fræðslunet Suðurlands í þessu sambandi. Menn sem höfðu áhuga á því að auka menntunarstig svæðisins gerðu sér grein fyrir því að þetta snerist ekki um að stofna enn einn háskólann heldur stofnuðu menn háskólafélag með það fyrir augum að nýta sérþekkingu svæðisins, þau sóknarfæri sem lægju í tækifærunum á svæðinu. Það er augljóst að mínu mati og margra annarra að þar sé matvælafræði augljós kostur, það væri mjög auðvelt að byggja upp þekkingu á matvælum á þessu svæði. Á starfsmenntasviðinu skortir til dæmis nemendur í kjötiðn, í slátrun og fleiri þætti er varðar þá vinnslu. Ég veit af áhuga fyrirtækja á Suðurlandi á að taka nemendur sem til að mynda eru í Fjölbrautaskóla Suðurlands í slíkt starfsmenntanám. Það væri hægt að tengja þetta einnig við Háskólafélagið þannig að þeir, sem best gengi og hefðu áhuga á meiri menntun, vildu útvíkka og dýpka menntun sína, gætu haldið áfram þá leið í háskóla. Eftir að hafa fengið starfsmenntanám með tengslum atvinnulífs og framhaldsskóla og háskóla væru meiri líkur til að þeir gætu haldið áfram í háskólanám á sínu svæði með fjarnámi og með möguleika á að nýta aðstæðurnar í fyrirtækjunum á viðkomandi svæði.

Ég held að ef við veltum þessu fyrir okkur út frá miklu víðari sjónarhól sjáum við miklu betri tækifæri. Við munum sjá þeim opinberu fjármunum sem við setjum í menntakerfið betur varið. Ég held að við munum sjá menntunarstigið aukast, þekkinguna aukast og þannig munu skapast nýsköpunartækifæri í atvinnulífinu sem virkilega er þörf á og ekki síst framleiðniaukning. Þarna komi undirstaðan að því, hún spretti upp af aukinni menntun og þekkingu á þeim stöðum sem við störfum á.

Frú forseti. Ég er bráðlega kominn að endimörkum ræðu minnar. Það eru nokkur áhugaverð atriði í þessu frumvarpi, til að mynda í 5. gr. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur reyndar fram breytingartillögu við þá grein, þar er lítils háttar tæknibreyting sýnist mér. Í þeirri grein er fjallað um að heimilt verði að setja á laggirnar og innheimta svokallað umsýslu- og afgreiðslugjald umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi.

Ég held að það sé mjög skynsamlegt. Ég held að það sé afar skynsamlegt af okkur Íslendingum að auka samstarf á vestnorræna sviðinu á öllum sviðum, ekki síst á sviði menntamála, heilbrigðismála og umhverfismála og einnig öryggis- og björgunarmála. Í þessum tveimur nágrannaríkjum okkar búa um rúmlega 50 þús. manns. Ég held að margt mundi styrkja okkar þjónustu og opinberan rekstur ef við í samvinnu við þessar þjóðir mundum auka samstarfið á þessum sviðum og tækjum jafnvel að okkur ákveðna þætti. Ég fagna því þessu.

Það vakti athygli mína að í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins er fjallað um ástæðuna fyrir því að veita þessa heimild fyrir umsýslugjaldi. Á árinu 2011 fékk Háskóli Íslands um 800 umsóknir frá Nígeríu, 200 frá Kamerún og álíka margar frá Pakistan, Íran, Írak og fleiri löndum utan EES. Þetta hafi leitt af sér mikla vinnu við að fara yfir umsóknirnar sem flestar voru ófullnægjandi. Þess vegna er hér lagt til að setja á þetta gjald, væntanlega til að fæla frá. Þetta hafa vinir (Forseti hringir.) okkar og nágrannar á Norðurlöndum einnig gert, væntanlega af sama tilefni, og mér finnst þetta alveg óvitlaus aðgerð.