141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hann um það sem fram kemur í umsögn frá fjárlagaskrifstofunni. Þar er reiknað með að frekari kvaðir um fjárútlát verði settar gagnvart því námi sem hér um ræðir. Samt er ekki gert ráð fyrir því í útgjaldaaukningu vegna frumvarpsins. Getur hv. þingmaður tekið undir þau sjónarmið að skoða þurfi málið mjög vandlega milli 2. og 3. umr.? Fram kemur í frumvarpinu að starfsmenntanámið, sem ekki hefur verið metið inn í reiknilíkanið, muni kosta ákveðna peninga en samt er ekki gert ráð fyrir neinum fjárútlátum vegna þessa í rekstri skólanna. Það er sérstaklega skrýtið í ljósi þess að frá því að skólunum var breytt hefur verið viðurkennt af hálfu menntamálaráðuneytisins að í raun komi ekki nægilegt fjármagn til skólanna miðað við þær skyldur sem þeir verða að uppfylla samkvæmt lögum. Þá hafa forsvarsmenn skólanna staðið frammi fyrir því hvort þeir geti farið að þeim lögum sem þeim ber hvað varðar kennsluskyldu og annað vegna þess að fjármagnið vantar.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því vegna þess að þessum skólum hefur gengið mjög erfiðlega að halda sig innan fjárlaga og í raun afleitlega. Það hefur verið viðurkennt en samt hefur aldrei verið gripið til þess að leiðrétta stöðu þessara skóla og láta þá fá þá fjármuni sem þarf klárlega til þess að reka þá. Við vitum hversu gríðarlega mikilvægir báðir þessir skólar eru, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta gæti ekki hugsanlega aukið á vandamál viðkomandi skóla, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir útgjaldaauka í frumvarpinu.