141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við deilum áhyggjum vegna þessara hluta hér, að ekki sé búið að taka starfsmenntanámið inn í reiknilíkanið. Síðan er ekki gert ráð fyrir beinum útgjöldum sem snúa að þeirri breytingu. Reyndar er gert ráð fyrir 50 millj. kr. útgjaldaauka eftir árið 2014 sem kemur að svokölluðu samstarfsneti.

Ég vil spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því sem ég tók fyrir í ræðu áðan. Þar velti ég upp spurningum varðandi það að þegar sótt var um fjárveitingu við fjárlagagerðina 2011, eins og var gert í árslok 2010, var sótt um tveggja ára tímabundna fjárveitingu upp á 300 millj. kr. til þess að þróa samstarfsverkefnið með ákveðna hluti í huga, þ.e. að skoða mjög rækilega og útfæra hvort hægt væri að sameina skólana og hagræða í rekstri o.s.frv.

Síðan kemur beiðnin aftur inn núna fyrir fjárlagagerðina 2013, þá er aftur haldið áfram með tveggja ára tímabundna fjárveitingu, 600 millj. kr. til að þróa samstarfsnetið. Maður hefur ekki forsendur til þess að meta hverju það hefur skilað því að það er ekki neitt um það í þessu frumvarpi. Reyndar kemur þar fram að gert er ráð fyrir því að árlega muni fjárútlát vegna verkefnisins verða 50 millj. kr.

Hver er skoðun hv. þingmanns á því þegar verið er að koma með inn svona beiðnir, þ.e. um tímabundnar fjárveitingar sem verða síðan fastar? Ég held því ekki fram að verið sé að lauma þessu inn í frumvarpið með tæknilegum fólskubrögðum, eða hvaða orð maður notar yfir það, heldur að það þurfi að vera miklu sterkari grunnur undir verkefninu. Það þarf vera miklu skýrara en það virðist vera. Það er auðvitað óþolandi að fara í tveggja ára tímabundið verkefni sem verður svo að fjögurra ára verkefni og síðan er það komið varanlega inn í lögin núna, sem (Forseti hringir.) var væntanlega búið að semja þegar sótt var um tímabundna fjárveitingu fyrir fjárlagagerðina fyrir þetta ár.