141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sannfærður um að það er ekki illur hugur sem liggur að baki frumvarpinu. Ég held að það sé einfaldlega ákveðin skoðun sem býr að baki því, sem gengur út á að menn telja skynsamlegt að setja almenn lög um opinbera háskóla og þar með skuli settur ákveðinn rammi utan um búnaðarfræðsluna sem er ekki lögbundinn. Það verði þá þannig, eins og grundvallaratriðið er í frumvarpinu, að efla sjálfstæði skólanna svo það séu þeir sem móti námsstefnu sína og þeir séu ekki bundnir af einhverjum lagalegum tilskipunum frá Alþingi um að búnaðarfræðsla skuli fara fram. Það er grundvallaratriðið í frumvarpinu.

Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt stefna. Ég hef beyg af því að þegar fram í sækir kunni það að hafa neikvæð áhrif á búnaðarfræðsluna. Ég er viss um að það mun ekki gera það núna. Ég er sannfærður um að þeir sem til að mynda stjórna Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem búnaðarfræðslan fer fram, hafa mjög mikinn skilning á þeim málum. Þeir hafa staðið sig gríðarlega vel í því máli og það hefur mjög margt gott gerst einmitt á því sviði innan Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Ég hef því engar áhyggjur af því fyrsta kastið að þetta muni hafa neikvæðar afleiðingar og er viss um, og ég veit það, að skólinn er auðvitað í lifandi tengslum við landbúnaðinn og á sitt líf undir því að þannig verði áfram.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er að hér skuli vera stigið þetta skref vegna forsögunnar, að það skuli vera stigið það skref að taka út þann lagalega áskilnað um búnaðarfræðsluna sem bæði snýr að Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Hólaskóla – Háskólanum á Hólum. Ég hefði talið skynsamlegt, þrátt fyrir allan vilja okkar til að hafa háskólana sem sjálfstæðasta, að hafa áfram lagalega áskilnaðinn um búnaðarfræðslu þannig að það fari ekkert á milli mála hér. Ekki vegna þess að ég treysti ekki núverandi stjórnendum þessara skóla, ég treysti þeim ákaflega vel og veit að þeir hafa gert mjög góða hluti við mjög þröngar aðstæður. (Forseti hringir.) Ég tel bara að það eigi að vera stefna okkar að tryggja að slík fræðslustarfsemi í þágu landbúnaðarins eigi sér stað.