141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um þetta málefni. Ég held að það mundi verða gríðarleg hagræðing af því að sameina Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Mér finnst furðulegt ef sú ríkisstjórn sem tekur við mun ekki skoða það mál í fullri alvöru vegna þess að samlegðaráhrifin eru svo mikil, menn eru að kenna sömu fögin beggja vegna við flugbrautina í miðborg Reykjavíkur.

Ég held líka að slík sameining yrði ekki einungis á fjárhagslegum grunni. Ég tel að hún mundi líka styrkja faglegan grunn háskólans og þá yrði það mögulega staðreynd að við gætum haft háskóla hér á landi sem væri í fremstu röð á heimsvísu. Ég held einfaldlega að smæð Háskóla Íslands sé slík að það sé erfitt fyrir háskólann að keppast við að komast verulega ofarlega á slíkan lista. En með sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands tel ég að hægt væri að ná fram miklu betri og faglegri starfsemi innan skólans fyrir utan að hægt væri að spara verulega fjármuni og verja þá kannski meiri fjármunum til rannsókna og þar af leiðandi efla íslenskt atvinnulíf til muna.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi sjálfstæði skólanna á landsbyggðinni, kannski sérstaklega Háskólans á Akureyri og landbúnaðarháskólanna. Ég fór í löngu máli yfir áhrif Háskólans á Akureyri á Eyjafjarðarsvæðið og reyndar á landsbyggðina alla, en við getum líka litið á vöxt og viðgang Hólaskóla og hvaða áhrif Hólaskóli hefur haft á landbúnaðinn í landinu og ekki síst á Sveitarfélagið Skagafjörð. Það hefur blómstrað eftir að háskólinn fór að vaxa og dafna og mikil breyting orðin á samfélaginu þar.