141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þrátt fyrir fjöldann allan af skýrslum um að efla ætti starfsnám hér á landi hefur mjög takmarkað áunnist í því hjá núverandi og reyndar fyrrverandi ríkisstjórnum í mjög mörg ár og nokkur kjörtímabil aftur í tímann. Það er öllum til vansa sem að hafa komið. Málið er að framhaldsskólarnir hafa ekki sinnt þörfum atvinnulífsins þegar kemur að starfsmenntun. Í raun og veru finnst mér að námið hafi verið dálítið deildaskipt á undangengnum árum hér á landi. Í fyrstu deild eða úrvalsdeild hafa verið bóklegu greinarnar, en í annarri deild hafa verið hinar verklegu greinar og starfsmenntun í landinu. Hún hefur þar af leiðandi ekki þróast með þeim hætti að við höfum verið að „framleiða“ fólk sem hefur menntun til að stunda iðnað hér á landi.

Svo er það náttúrlega önnur saga að við höfum búið við ríkisstjórn síðustu fjögur árin sem hefur ekki beinlínis eflt iðnað í landinu. Við höfum frekar horft upp á að hún hafi stundað stórfelldan útflutning á iðnaðarmönnum héðan af landi á undangengnum fjórum árum. Þetta eru stór orð, en af hverju segi ég þetta? Vegna þess að hún hefur ekki stuðlað að neinum verklegum framkvæmdum til að mynda tengdum orkuvinnslu hér á landi sem nokkru nemur á undangengnum fjórum árum.

Það er þess vegna spennandi að verða áhorfandi að því, þar sem ég verð ekki á Alþingi á næsta kjörtímabili, hvernig ný ríkisstjórn mun nýta öll þau tækifæri sem felast í því að nýta náttúruauðlindir landsins skynsamlega. Það mætti segja mér að þá þyrfti fyrst að fara að efla verklegt nám við framhaldsskóla landsins vegna þess að menntakerfið þarf að sinna þörfum atvinnulífsins hvað þetta varðar. Við eigum að setja verklegar greinar í úrvalsdeildina eins og hinar bóklegu greinar hafa verið á undangengnum árum. Þessu þarf að breyta.