141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Eins og ég sagði í ræðu minni í morgun lítum við þingmenn Framsóknarflokksins frekar jákvæðum augum á frumvarpið en að mörgu ber að hyggja. Rétt er að fara aðeins yfir hver tilgangur og nauðsyn lagasetningarinnar er því að mér finnst það ekki hafa komið nægilega skýrt fram.

Lagabreytingin, sem snýr að umgjörð háskóla, hefur tekið grundvallarbreytingum á undanförnum árum. Það voru sett ný lög um háskóla árið 2006 sem fólu í sér breytingar á starfsskilyrðum háskóla. Það var til dæmis lögfest að allir starfandi háskólar þyrftu að öðlast viðurkenningu ráðherra á starfsemi sinni og er sú viðurkenning tengd skilgreindum fræðasviðum. Bæði Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum sóttu um og öðluðust slíka viðurkenningu á sínum tíma. Landbúnaðarháskóli Íslands á sviði náttúruvísinda og bú- og auðlindavísinda og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum á sviði auðlinda- og búvísinda. Önnur meginbreyting á lagalegri umgjörð opinberra háskóla varð þegar Alþingi samþykkti lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Opinberir háskólar eru taldir upp í 1. gr. frumvarpsins en þeir eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, eins og hann er kallaður. Þeir eru reknir sem opinberir háskólar og lúta því yfirstjórn ráðherra. Það er mjög skýrt í frumvarpinu hvaða háskólar þetta eru og því ber að fagna því að ef einhver velkist í vafa um hvaða háskólar eru opinberir eru öll tvímæli tekin af um það í frumvarpinu. Háskólarnir byggja starfsemi sína á almennum háskólalögum og lögum um opinbera háskóla en í nágrannalöndum Íslands eru starfsskilyrði háskóla með sambærilegum hætti og lagt er til frumvarpinu, þ.e. með áþekka lagaumgjörð sama á hvaða fræðasviði þeir starfa.

Það ber sérstaklega að fagna því að frumvarpið er komið fram vegna þess að við eigum að sækja reynslu, þekkingu og samanburð til nágrannaríkja okkar, eitthvað sem hefur skort mjög á allt þetta kjörtímabil. Þegar frumvörp frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafa verið lögð fyrir þingið er ekki litið til löggjafar á Norðurlöndunum, þeirra ríkja sem við höfum ætíð borið okkur saman við hvað varðar löggjöf, heldur er ríkisstjórnin sem nú starfar sífellt að finna upp hjólið og kemur með splunkunýjar kenningar og tillögur að lagafrumvörpum sem oft og tíðum hafa endað fremur illa. Ég er að sjálfsögðu að vísa í frumvarp til laga um nýja stjórnarskrá þar sem sótt eru reynsla og tillögur nánast hringinn í kringum heiminn í stað þess að halda okkur við þá norrænu löggjöf sem hefur gefist okkur vel í gegnum tíðina.

Varðandi tilgang um nauðsyn þessarar lagasetningar var það svo að við setningu laga um opinbera háskóla 2008 var í bráðabirgðaákvæði kveðið á um að búnaðarfræðslulög skyldu endurskoðuð fyrir árslok 2009. Þar að baki lá það sjónarmið að æskilegt væri að ráðrúm gæfist til að laga starfsemi menntastofnana landbúnaðarins að þeim breytingum sem urðu á stöðu þeirra út frá högun við tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta. Eins og við munum heyrðu landbúnaðarháskólar á sínum tíma undir landbúnaðarráðuneytið en ekki menntamálaráðuneytið en nú heyra allir skólarnir undir menntamálaráðuneytið.

Á sama tíma átti mennta- og menningarmálaráðuneytinu að gefast færi á að gaumgæfa vel málefni landbúnaðarháskólanna áður en tekin væri afstaða til endurskoðunar á búfræðslulögum og gerðar tillögur til Alþingis um hvernig málefnum skólanna yrði skipað til framtíðar. Af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og opinberu háskólanna hefur verið unnið að því að færa mikilvæga þætti í starfsemi skólanna að því sem almennt gildir um samskipti ráðuneytis við háskólana í landinu. Hér er til dæmis nefnd uppbygging kennslu- og rannsóknarsamninga, fyrirkomulag fjárveitinga, fjárhagsmálefni og uppgjör, upplýsingagjöf, gæðastarf o.fl. Samtímis hefur verið unnið að endurskoðun búnaðarfræðslulaga líkt og kveðið var á um í bráðabirgðaákvæði í lögum um opinbera háskóla. Svo kemur fram að í tengslum við þá vinnu hafi ráðuneytið haft samband við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, til að koma þeim málum áfram.

Hér segir að verði frumvarpið að lögum verði skipan í háskólaráð opinberu skólana samræmd sem yrði mikil framför. Ég tek undir það því að þá er komin heildarsýnin, sem er einn grunnþátturinn í frumvarpinu, og hún mundi hafa í för með sér mikla framför og samheldni í háskólastarfi hér á landi. Þegar litið er til meginefnis frumvarpsins er því skipt í fjóra flokka, ef svo má segja. Meginefnið er að samræma lagaumhverfi opinberra háskóla á Íslandi með afnámi laga um búnaðarfræðslu þannig að Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum falli undir lögin um opinbera háskóla. Lagaumgjörð um opinbera háskóla á Íslandi verður þannig samræmd og starfsskilyrði þeirra jöfnuð, m.a. með sambærilegri skipan háskólaráða. Með því mun lagaumgjörð er varðar starfsemi opinberra háskólanna í senn verða einfaldari og skýrari en áður og starfsskilyrði þeirra jöfnuð. Þetta er þess háttar tillaga að ekki er hægt að vera á móti henni vegna þess að verið er að leggja til ákveðna samhæfingu.

Í öðru lagi er meginefni frumvarpsins að lögfesta samstarfsnet opinberra háskóla, svokallað háskólanet, til að efla og formgera samstarf þeirra enn frekar. Verkefnisstjórn samstarfsnetsins er fest í sessi og er lagt til að hún fjalli um sameiginleg málefni háskólanna og beri ábyrgð á þeirri framkvæmd. Þarna ætla ég aðeins að stinga niður fæti vegna þess að það er eitthvað sem má kannski ekki tútna eða þenjast svo mikið út að það fari fyrst og fremst að snúast um sjálft sig. Starfið sem fer fram þarna verður að vera mjög markvisst.

Í þriðja lagi er meginefnið að opinberum háskólum verði veitt heimild til að taka umsýslu- og afgreiðslugjald af nemendum með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er nýlunda í íslenskum lögum. Þarna er lögfest að þeir aðilar sem koma hingað af svæði utan EES-svæðisins verði að greiða fyrir þá þjónustu sem háskólarnir veita og leyfilegt er að kalla það umsýslu- og afgreiðslugjald. Ég tel að það mjög mikilvægt því að í fréttum í vikunni kom fram að við mundum kannski á einhvern hátt sjá háskólana okkar stækka og verða fjölmenna í framtíðinni. Það kom fram að flest allt námsefni og kennsla fer orðið fram á enskri tungu og bækur og kennsluefni líka. Það er því alveg sókn fyrir okkar háskóla að fara inn á þær brautir að sækja sér nemendur til útlanda og þá einnig til þeirra landa sem kannski hafa helst áhuga á t.d. Háskólanum á Akureyri sem er með norðurslóðamálefnin og flotta starfsemi í kringum þá stofnun. Það eru mjög spennandi möguleikar og vaxtamöguleikar sem við sjáum fyrir okkur til framtíðar litið.

Í fjórða lagi er meginefni frumvarpsins að laga tiltekin ákvæði laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, að þeim breytingum sem urðu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, til að mynda ákvæði um hæfisskilyrði starfsmanna háskóla. Það er því líka verið að taka á starfsmannaþættinum og leggja mat á hæfisskilyrði starfsmanna háskóla.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Ég á enn eftir að fjalla um samráð og mat á áhrifum í frumvarpinu þannig að ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá. Ég lýk hér með máli mínu í þessari umferð.