141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt grundvallaratriða í frumvarpinu er að ákvæði sem felur í sér lagalegan áskilnað um búnaðarfræðsluna fellur brott. Það á að vera ein heildarlöggjöf um opinberu háskólana og gildir einu hvort þeir heita Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri eða Háskólinn á Hólum. Það finnst mér grundvallaratriði og ég hef miklar áhyggjur af því að þetta sé gert svona, að lagalega tilvísunin í búnaðarfræðsluna, sem ég tel að skipti öllu máli, sé felld brott. Það er mjög brýnt að ákvæðið sé inni, ekki vegna samtímans, ekki vegna næstu framtíðar heldur til lengri framtíðar litið. Ég er alveg á því að núverandi stjórnendur skólans sjái og fylgi því eftir sem þeir hafa gert með miklum myndarbrag, þeir vilja standa vel að búnaðarfræðslunni í landinu.

Ég er að horfa til lengri tíma og ég held að miklu máli skipti hver skilaboðin eru einmitt núna. Við erum stödd á miklum breytingartímum, m.a. í landbúnaðinum, og þeir tímar kalla á aukna þekkingu og að reynt sé að þróa búnaðarfræðslunámið. Það hefur verið þróað, eins og kom glögglega fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan. Námið hefur þróast með mjög eftirektarverðum hætti og það er sem betur fer mikil eftirspurn eftir búnaðarfræðslunáminu, hinu hefðbundna landbúnaðarnámi, í þessum skólum. Sú eftirspurn kemur ekki bara úr sveitunum, hún kemur miklu víðar að sem gerir það að verkum að áhugi og vilji fólks vaknar til að stunda landbúnað á sem breiðustum grundvelli. Ég er ekki bara að tala um hefðbundna búnaðarfræðslunámið heldur ekki síður um garðyrkjuna þar sem hefur orðið mikil aukning og vakning og í felast mikil tækifæri. Ég held þess vegna að miklu máli skipti að þeir sem stunda einmitt þær atvinnugreinar hafi fast land undir fótum og þurfi ekki að óttast að einhver breyting verði á sem raskar þeim grundvelli.