141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef líka nokkrar áhyggjur af því að lagalegur áskilnaður um búnaðarfræðslu skuli vera felldur brott í frumvarpinu en það er svo sem ekkert nýtt. Við vitum að alla vega Samfylkingin hefur ekki haft áhuga á því að landbúnaður sé efldur hér á landi vegna þess að eina markmið Samfylkingarinnar er að ganga í Evrópusambandið og flytja allar landbúnaðarvörur inn til landsins. Samfylkingin lítur svo á að við eigum alls ekki að rækta okkar eigið grænmeti eða annað vegna þess að þau telja allt svo langtum betra í Evrópusambandinu.

Ég lagði ríka áherslu á það í fyrstu ræðu minni í morgun að við verðum að standa vörð um landbúnaðinn hér á landi. Ég var bæði að vísa í garðyrkju og hefðbundinn landbúnað og í öll þau tækifæri sem við eigum til framtíðar því að á Íslandi er mikil framþróun í ræktun, t.d. í repjuræktun svo ég nefni eitt dæmi. Það á sér stað mikil þróun í akkúrat í þeim geira, í að rækta upp landið og í að rækta nýjar tegundir. Hverjum hefði til dæmis dottið í hug fyrir 20 árum að hægt væri að rækta korn hér á landi og svo má lengi telja? Það eru aðilar og frumkvöðlar sem gera tilraunir með hinar ýmsu tegundir til ræktunar.

Við megum heldur ekki gleyma því í umræðunni að við höfum alveg stórkostlega útflutningsmöguleika sé þeim þáttum sinnt í einhverjum mæli. Ég treysti því að eftir kosningar verði farið að beina sjónum að þeim atriðum, t.d. að garðyrkjunni og möguleikum okkar í gróðurhúsaræktun. Við erum með heita vatnið, við erum með kalda vatnið til vökvunar, við erum með rafmagnið til lýsingar, við erum með koltvísýringinn, t.d. upp á Hellisheiði, sem puðrast upp í loftið en hann er hægt að beisla til að setja í garðyrkjuver. Við verðum ávallt að hafa þá framtíðarsýn í huga þegar er rætt um garðyrkjuna og landbúnaðinn og þá sérstaklega að við eigum öflugt fólk sem hefur farið í gegnum háskóla til að geta starfað á því sviði.