141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir þessa fyrirspurn. Því hefur verið haldið fram að erfitt sé að sameina opinbera háskóla og þá háskóla sem eru í einkarekstri vegna ólíks lagaumhverfis. Hér er enn frekar skerpt á tilganginum og það listað upp hverjir opinberu skólarnir eru, þeir eru taldir upp í 1. gr. frumvarpsins, tæmandi listi. Verði frumvarpið að lögum gilda þau lög þar af leiðandi ekki um Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst.

Ég tel að mjög gott starf fari fram í einkareknu háskólunum og þar fara líka fram rannsóknir og þróun. Ég veit að í Háskólanum í Reykjavík eru þeir að gera mjög góða hluti er snúa að verkfræði, þar fer mikil rannsóknarvinna fram. Auðvitað væri gott að þetta mundi nýtast sem best en mér finnast nokkur nýmæli í lögum um opinbera háskóla — sumir segja að háskólamenntun eigi helst að vera frí og borguð af ríkinu og að verið sé að mismuna einstaklingum, að einkaháskólarnir þurfi að taka skólagjöld til að viðhalda rekstrinum en fái líka opinbert fé, að sé til þess vilji hjá einstaklingum sem vilja sækja háskólanám þá hafa þeir þetta val á milli þessara tveggja kerfa.

En það sem ég ætlaði að segja áðan um nýmæli í frumvarpinu hvað varðar opinbera háskóla þá er hér opnað á heimild til að rukka þá aðila sem ekki eru búsettir á EES-svæðinu og veita fé á þann hátt í opinberu háskólana vegna samnings okkar á EES-svæðinu. Þetta hefur alltaf verið til staðar hjá einkaháskólunum. Ég verð að fara yfir sameiningu háskólanna í seinna andsvari.