141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í fyrri ræðu minni í dag almennt um þetta mál og heyri að þingmenn eru að velta skólakerfinu fyrir sér. Ég get tekið undir það sem meðal annars kom fram hjá hv. þingmönnum Ólöfu Nordal og Vigdísi Hauksdóttur að mikilvægt væri að taka heildarumræðu um skólakerfið. Ég kom einmitt inn á það áðan að ég hefði efasemdir um að aftengja sambandið á milli atvinnulífsins og landbúnaðarháskólanna. Almennt séð held ég að það verði að vera tengingar á milli atvinnulífsins og háskólanna, bæði hvað varðar að nemendur sem útskrifast svari eftirspurn atvinnulífsins á hverjum tíma en einnig að háskólarnir í gegnum grunnrannsóknir sínar sem eru ekki endilega hagnýtar á hverjum tíma skapi möguleika sem atvinnulífið fylgist með og geti nýtt sér. Þá kom ég líka inn á það hversu mikilvægt það væri að háskólarnir mundu skoða sérstaklega nýja atvinnugrein sem er að skapast hér í kringum olíuleit.

Frú forseti. Það sem mér finnst við hafa upplifað í háskólasamfélaginu, með þeim breytingum sem þar hafa orðið á liðnum árum, eru augljós jákvæð merki um að þegar háskólar eru staðsettir á landsbyggðinni — ég fór sérstaklega yfir Háskólann á Akureyri en ég get líka nefnt háskólasamfélagið sem varð til í Borgarfirði með Háskólanum á Bifröst og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri — hafa þeir gríðarlega mikil áhrif á samfélagið sem þeir spretta upp úr. Það skapast ekki bara störf fyrir háskólamenntað fólk við kennslu og rannsóknir heldur er það einhvern veginn þannig að fólk sem útskrifast frá þessum skólum er líklegra til að setjast að á landsbyggðinni en þeir sem útskrifast úr háskólunum í Reykjavík. Þetta er líka reynslan á Norðurlöndum og ég kom inn á það. Ég vildi ítreka þetta, en ég ætla að reyna að nýta þann tíma sem ég hef til að fara aðeins nákvæmar yfir nokkur ákvæði í frumvarpinu.

Á blaðsíðu 3 í kaflanum um tilgang og nauðsyn lagasetningarinnar er fjallað um að lagaleg umgjörð háskóla hafi breyst í grundvallaratriðum á undanförnum árum. Við setningu laga um opinbera háskóla árið 2008 var til að mynda bráðabirgðaákvæði um að búnaðarfræðslulög skyldu endurskoðuð fyrir árslok árið 2009. Að baki lá það sjónarmið meðal annars að það væri æskilegt að ráðrúm gæfist til að laga starfsemi þessara menntastofnana landbúnaðarins að þeim breytingum sem urðu á stöðu þeirra við það að verða annars vegar háskólar og við tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta, þegar þeir fóru frá þáverandi landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytisins. Á sama tíma gæfist mennta- og menningarmálaráðuneytinu færi á að gaumgæfa vel þessi málefni sem þeir þekktu ekki áður, þ.e. málefni landbúnaðarháskólanna, áður en tekin væri afstaða til endurskoðunar á búnaðarfræðslulögum og gerðar tillögur til Alþingis um það hvernig málefnum skólanna og búnaðarfræðslunnar yrði skipað. Þess vegna er hér í frumvarpinu kveðið á um að fella úr gildi lög um búnaðarfræðslu, lög um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands að Stóra-Ármóti í Flóahreppi og reyndar líka kafla úr lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Ég vil koma þeim sjónarmiðum mjög skýrt á framfæri að ég tel að þetta þurfi meiri umræðu. Ég skil þau sjónarmið þar sem menn óttast beintengingar atvinnulífsins við háskólana og beina fjármögnun, en ég tel að það eigi að vera tengingar til staðar til að menntun og þekking geti farið á milli þar sem slíkt samstarf er hagnýtt, ég held að það sé nauðsynlegt. Það er varhugavert að slíta þar allt í sundur. Það er kannski meðal annars einn hluti af þeirri stóru umræðu um að við höfum á undangengnum árum og áratugum beint of mörgu fólki inn á bóknámsbrautirnar og skilið verkmenntagreinarnar út undan, bæði í áherslum í orði og í riti. Við höfum ekki talað nóg um það en þegar við höfum talað um að skortur sé á verkmenntun höfum við ekki látið fjárframlög vera í samræmi við það eða áherslur okkar í stjórnun eða í lögum.

Ég held að hér sé ekki gerð nein tilraun til að svara þessu. Ég held að eftir sem áður fái starfsmenntanám engan stuðning hér og í raun er verið að draga úr því. Svo kemur líka fram að við það að aðskilja starfsmenntaskólasviðið frá landbúnaðarháskólunum vanti fjármagn til þess. Það hafa þá augljóslega verið einhver samlegðaráhrif þarna á milli. Þetta eru því hlutir sem þarf virkilega að skoða frekar.

Það sem ég ætlaði meðal annars að koma inn á, ég sé að tími minn gengur nokkuð hratt, frú forseti, er að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu um háskólanetið eða samstarfsnet háskólanna. Ég tel það vera jákvæðasta punktinn í frumvarpinu. Hér er fjallað um að þegar háskólanetið var sett á laggirnar hafi markmiðið verið þríþætt. Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu í samfélaginu, í öðru lagi að hagræða í rekstri skólanna þannig að fjármunir nýtist sem best. Menn geti þannig hugsanlega fært ákveðin svið til annars skóla og ekki verið að kenna á öllum stöðum í einu. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að nýta netið í það. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar um landið. Ég tek undir að þetta er skynsamlegt. Ég held þess vegna að lögfesting samstarfsnetsins sé mjög góður þáttur. Ég er meira efins um þann anda að aðskilja skólana frá atvinnulífinu í meira mæli en við þekkjum í dag.

Frú forseti. Í lok nefndarálits meiri hlutans er fjallað um að í nefndinni hafi verið lögð áhersla á að grípa þyrfti til aðgerða til að tryggja viðveru menntafólks á Íslandi eftir útskrift og koma í veg fyrir að það settist að erlendis eftir nám og skapa hvata til að flytja aftur til Íslands eftir nám. Þetta er kannski sérkennilega orðað en væntanlega eru menn að velta því fyrir sér að virðisaukinn af menntun unga fólksins nýtist okkur á Íslandi og það borgi sína skatta og skyldur hér. Þetta tengist auðvitað endurgreiðslum til LÍN að einhverju leyti.

Á flokksþingi okkar framsóknarmanna ályktuðum við að skynsamlegt væri að hvetja áfram til þess að fólk sækti sér framhaldsnám erlendis sem ekki væri í boði hérlendis. Sjálfur þekki ég það af eigin raun, dýralækningar eru ekki kenndar á Íslandi og þeir sem hafa sótt sér þá menntun hafa sótt hana víðs vegar um heiminn, satt best að segja, mest þó í gegnum tíðina til Noregs og Danmerkur og til Þýskalands síðari árin. Þetta gerir það að verkum að innan greinarinnar fá menn upplýsingar víða að og það er mjög jákvætt. Við þekkjum þetta líka í sambandi við framhaldsnám lækna, þeir fara til Norðurlandanna eða Bandaríkjanna og þá verður til á Íslandi góð blanda af því nýjasta sem er að gerast á ólíkum sviðum í ólíkum heimshlutum. Þetta er mjög mikilvægur hvati til að halda við framþróun á Íslandi.

Í nefndarálitinu kemur fram að ef til vill mætti nýta skattafslátt í þessa veru eða hvatakerfi á einhvern hátt og ég tek undir að það er auðvitað áhugavert, það kemur fram í nefndarálitinu að slíkt hvatakerfi sé til staðar í Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Nýja-Sjálandi. Við þekkjum það líka að í byggðastefnu Norðmanna er það þannig að fari háskólamenntað fólk til svæða þar sem skortur er á háskólamenntuðu fólki fær það ýmist skattafslætti eða þarf að greiða minna af námsláninu til baka um tíma, eða það telur tvöfalt. Það er sem sagt einhver útfærsla á því að það sé verulegur hvati fyrir ungt, háskólamenntað fólk að setjast að í þeim byggðum og sá hvati getur verið fyrir hendi í nokkur ár. Það er nú oft þannig, frú forseti, að þegar menn prófa að setjast að úti á landi, sem þeir halda kannski að sé ekki mjög áhugavert, komast þeir að því að það er mjög áhugavert, setjast þar (Forseti hringir.) að til lengri tíma, ala upp sín börn og verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Ég tel að það sé skynsamlegt að skoða þetta atriði nánar.