141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að ástæða sé til að ætla að olíuleit verði vaxandi atvinnugrein hér á landi. Við sjáum til dæmis miklu meiri áhuga núverandi stjórnvalda á olíuleit en vatnsafls- eða jarðhitavirkjunum. Það er þeirra áhersla í þessum efnum, það hefur komið mjög skýrt fram. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að þarna sér ríkisstjórnin greinilega vaxtarbrodd. Ríkisstjórnin lifir að vísu ekki lengi, sem betur fer, en þarna er alla vega vísbending frá núverandi stjórnvöldum.

Það er mjög mikilvægt að samstarf atvinnulífs og skóla geti haldið áfram. Þessir skólar hafa síðan mikla möguleika til að þróast áfram. Hv. þingmaður kom inn á mjög áhugaverðan hlut í þessum efnum og það er þetta samstarf tveggja skólastiga, framhaldsskólastigsins og háskólastigsins. Hv. þingmaður gat þess að menn væru að ræða þetta til að mynda á Suðurlandi. Mjög svipaða hluti hafa menn verið að þróa á Vesturlandi með samstarfi Menntaskóla Borgarfjarðar og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri þar sem verið er að setja upp nám til stúdentsprófs á búnaðarfræðslusviði. Það finnst mér mjög áhugavert til þess meðal annars að opna leiðir frá framhaldsskólanum og inn í háskólann.

Að öðru leyti varðandi háskólann, sem hv. þingmaður nefndi áðan, þá er það alveg rétt að vakin er athygli á því að kostnaðurinn, eða þeir fjármunir sem ætlaðir eru til þess verkefnis sem hér er verið að takast á við, er greinilega vanmetinn. Við sjáum einmitt að það hefur verið að gerast í þessum landbúnaðarháskólum. Ef ég tek Hólaskóla sem dæmi þá var gengið þannig frá málum eftir 2. umr. fjárlaga að fjárveitingarnar hefðu dugað til 1. október í ár ef ekki hefði verið brugðist við. Þetta vissi meiri hluti fjárlaganefndar, menn hefðu getað farið í Laufskálaréttina og síðan lokað Háskólanum á Hólum.