141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér, í ljósi síðustu ummæla hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, hvort skilja beri það sem svo að hann, og þá flokksfélagar hans væntanlega, vilji varðveita þau sérákvæði sem eru fyrir hendi í lögum í dag um búfræðsluna, þann þátt, en geti hins vegar fellt sig við hina almennari þætti frumvarpsins sem hafa kannski breiðari skírskotun og snúa ekki sérstaklega að landbúnaðarháskólunum. Mér finnst orð hans kalla þetta fram vegna þess að sjálfur hef ég verið nokkuð hugsi yfir þessum ákvæðum. Ekki endilega vegna þess að það þjóni einhverjum tilgangi í sjálfu sér í mínum huga að hafa sérstakt lagaumhverfi um landbúnaðarháskólana heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef haft ákveðnar áhyggjur af því að með því að setja þá í sama ramma og háskólana almennt þá sé kannski skilningur á sérstöðu þeirra og sérstökum aðstæðum að dvína.

Það var rótin af því að margir höfðu áhyggjur af því á sínum tíma þegar landbúnaðarskólarnir voru fluttir frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins, þ.e. að þó breytingin sjálf væri þess eðlis að hana væri hægt að rökstyðja væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að þessum skólum yrði kannski síður sinnt en verið hafði til þessa. Þeir nytu ef til vill ekki sama skjóls af fagráðuneyti og áður var. Ég er að velta fyrir mér hvort sú er upplifun hv. þingmanns og kannski ástæðan fyrir því að (Forseti hringir.) hann leggst gegn þessum tiltekna hluta frumvarpsins.