141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðari spurningu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þá vildi ég sjá það betur tryggt, með einhverjum hætti, að þeir skólar sem hér um ræðir, á Hvanneyri og á Hólum, geti starfað í nánum tengslum við atvinnulífið, að ekki verði breyting í þeim efnum. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ef skilningur er á því í stjórnkerfinu og ef skilningur er á því hjá löggjafanum held ég að hægt sé að stuðla að þessum tengslum og ég held að þau séu sérstaklega mikilvæg fyrir þessa skóla. Ég tek fram að ég hef ekki haft í huga að leggjast sérstaklega gegn framgangi þessa máls en ég teldi að það yrði málinu til mikilla bóta ef tryggt væri með skýrari hætti að þau tengsl atvinnulífs og skólanna sem hér um ræðir væru tryggari og skýrari en nú.

Ég hef mikið velt því fyrir mér hvort ástæða sé til að fella niður sérákvæði laga um búnaðarfræðslu og verð að játa að ég er ekki alveg kominn að niðurstöðu í þeim efnum. Það eru rök fyrir því að hafa almenn lög á þessu sviði um opinbera háskóla, sem gilda um þessa skóla jafnt sem aðra, en eins og ég rakti í upphafi er að mínu mati raunveruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að sérstaða þessara skóla sé ekki nægilega tryggð og allar breytingar í þá veru hljóta að vera af hinu góða.