141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvar hv. þm. Birgis Ármannssonar.

Ég get tekið undir að tryggja þarf námið í lögum og ég sakna þess í frumvarpinu að tækifærið hafi ekki verið notað til þess að tryggja lagaumgjörðina á einhvern hátt. Í nefndarálitinu kemur fram sá skilningur að ákveðið nám við landbúnaðarháskólana skuli vera á framhaldsskólastigi. Aðfaranámið, sem er kallað ýmsum nöfnum, er fyrir þá sem hafa náð vissum aldri og hafa stundað framhaldsskólanám að einhverju leyti. Námið gefur þeim kost á að fara inn í frumgreinadeildirnar að uppfylltum skilyrðum. Það hefur ekki fengið umfjöllun eins og námið sem kemur fram hér, í búfræði- og garðyrkjugreinum, en það er alveg sambærilegt. Verið er að skerpa á skilningnum varðandi landbúnaðarháskólana, hvaða nám er á framhaldsskólastigi og hvaða nám er á háskólastigi.

Ég hefði talið heillavænlegt að minnast líka á þær deildir í frumvarpinu þegar er verið að skerpa skilin þar á milli og verið að taka upp samstarfsnet háskólanna. Hvað varðar Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst, sem eru að vísu einkaskólar og lúta ekki lögmálum opinberra háskóla, mætti á einhvern hátt fjalla um þá í frumvarpinu eða í nefndarálitinu, eðli málsins samkvæmt, vegna þess að verið er að bjóða upp á þetta.

Svo getum við flækt málin enn frekar með umræðunni um að það nám sé ekki lánshæft hjá LÍN vegna þess að það er talið vera á framhaldsskólastigi o.s.frv. Mér (Forseti hringir.) finnst vanta umfjöllun um það atriði í nefndaráliti.