141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvað það varðar. Ég ætlaði hins vegar aðallega að nota síðara andsvar mitt til að nefna það atriði sem þarf að vera okkur ofarlega í huga að þessu leyti. Það tengist því sem hv. þingmaður nefndi í andsvörum sínum en líka því sem kom raunar fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar áðan. Á undanförnum árum, og eiginlega frá því að ég fór að fylgjast með opinberri umræðu um menntamál, hefur stöðugt verið talað um hversu mikilvægt sé að fjölga möguleikum í starfsnámi, efla starfsnám, auka tengsl atvinnulífs og menntakerfis o.s.frv.

Staðreyndin er hins vegar sú að það er eins og hugur hafi ekki alltaf fylgt máli. Menn hafa játað það í orði kveðnu en síðan hafa aðgerðir stjórnvalda, aðgerðir löggjafans, ekkert endilega hnigið í sömu átt, og er þá alveg örugglega öllum um að kenna sem hafa komið því, hvort sem er á vettvangi Alþingis, á vettvangi ráðuneyta eða annars staðar. Ég held að hin góðu áform sem sett hafa verið fram hvað eftir annað um eflingu verklegs náms, starfsnáms á mismunandi sviðum og tengsl við atvinnulífið hafi ekki verið efnd, stóru orðin hafa ekki verið efnd. Það dregur hins vegar ekki úr því að þarna eru viðfangsefni og verkefni sem við verðum að standa okkur betur í, við þurfum að standa okkur betur á því sviði.

Lönd í kringum okkur sem hafa náð góðum árangri í lífskjörum, atvinnulífi, og raunar á sviði menntamála líka, hafa ekki eingöngu beint sjónum sínum að (Forseti hringir.) hinu akademíska langskólanámi, háskólanáminu, heldur líka að starfsnámi sem hefur í mörgum tilvikum (Forseti hringir.) reynst mikilvægur grundvöllur uppvaxtar í atvinnugreinum sem hafa fært þær þjóðir mjög fram á við.