141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

uppbygging stóriðju í Helguvík.

[10:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki að undra að það vefðist fyrir mönnum að átta sig á hvert ætti að beina þessari fyrirspurn en ég skal taka á málinu eins og það snýr að innanríkisráðuneytinu. Það snertir innanríkisráðuneyti á forsendum hafnalaga. Þar liggur fyrir þinginu frumvarp sem er ófrágengið, ég hygg að það sé enn í umsögn. Í hafnalögum er skilgreint með hvaða hætti ríkisvaldið getur komið að tilteknum framkvæmdum. Framkvæmdir sem tengjast tiltekinni afmarkaðri atvinnustarfsemi eru fjármagnaðar sérstaklega en ekki á grundvelli almennra hafnalaga eða fjármuna sem eru til ráðstöfunar innan eða millum hafnanna þannig að þar þyrfti að koma til sérstakt frumvarp. Það frumvarp, frumvarpssmíð eða það viðfangsefni væri ekki á borði innanríkisráðuneytisins.