141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

innheimtulaun lögmanna.

[10:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Vegna nýlegra frétta um gífurleg innheimtulaun vegna kröfu þrotabús á hendur ættingjum stjórnenda fyrir þrotabúið vil ég beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra. Fyrir mitt ár 2010 var samþykkt lagabreyting um fjárhæð innheimtulauna lögmanna. Þar átti ráðherra að setja leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn varðandi innheimtu og þá sérstaklega hvað varðar löginnheimtu.

Jafnframt var þar bannað að taka innheimtulaun af gjaldfelldri upphæð, þ.e. höfuðstól eða vaxtakostnaði, umfram það sem var í vanefndum þegar innheimtan byrjaði. Í svari til hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur kom fram að drög hafi verið send Lögmannafélaginu og að brugðist hafi verið við, athugasemdir gerðar og að ráðuneytið væri að skoða þær athugasemdir. Þegar ég kíkti á vef innanríkisráðuneytisins og Lögmannafélags Íslands var þessi drög hvergi að finna þar. Ég gat hvergi séð að búið væri að samþykkja þessar reglur.

Nú er árið 2013 og verið hafa gífurlegar innheimtur, farið hafa fram margar nauðungarsölur. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju hafa þessar reglur ekki enn þá verið settar? Hvenær má vænta þess að reglurnar verði settar? Af hverju hefur ráðuneytið ekki fylgt eftir lögum um bann við að taka innheimtulaun af gjaldfelldri upphæð?