141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

sala á landi Reykjavíkurflugvallar.

[10:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir hve greiðlega hann svarar fyrirspurnum hér í dag, en auðvitað eru mörg mál ofarlega á baugi í þjóðfélaginu sem snerta starfssvið hæstv. ráðherra þó að reyndar hafi gætt þeirrar tilhneigingar að undanförnu að æ fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar telji sig vera samgönguráðherra í hlutastarfi. En það er önnur saga.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í flugvallarmálið og þær nýjustu vendingar sem þar hafa átt sér stað. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort það samkomulag sem fjármálaráðherra og formaður borgarráðs, hygg ég að það hafi verið, undirrituðu á dögunum um kaup á tilteknu landsvæði á landi Reykjavíkurflugvallar. Hvort það samkomulag hafi verið gert án aðkomu hæstv. ráðherra og innanríkisráðuneytisins, hvort fjármálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafi gert þennan samning án þess að innanríkisráðuneytið, ráðuneyti samgöngumála, hafi komið þar að.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvert sé gildi þess samkomulags sem þegar er undirritað. Eins og hæstv. ráðherra benti á áðan er það auðvitað skilyrði þess að hægt sé að gera eitthvað á þessu svæði að ráðuneyti samgöngumála gefi samþykki sitt. Ég velti fyrir mér, hæstv. ráðherra, hvort sá samningur sem gerður hefur verið sé eitthvað meira en bara viljayfirlýsing tiltekinna stjórnmálamanna úr Samfylkingunni.