141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

afskipti innanríkisráðherra af bandarískum lögreglumönnum.

[10:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Bandarískum yfirvöldum var að sjálfsögðu fullljóst hvað var að gerast þegar ekki var heimilað að bandarískir lögreglumenn væru hér að störfum án þess að hafa til þess réttarheimild. Það var alveg skýrt hvernig ráðuneytið stóð að þeim málum. Að frumkvæði ríkissaksóknara var haft samband við ráðuneytið, enda leit ríkissaksóknaraembættið svo á að ráðuneytið hefði lögbundnum skyldum að gegna. Það er alrangt að tala um að innanríkisráðuneytið og ég sem ráðherra höfum haft afskipti af ákæruvaldinu, það gerðum við ekki. Við höfðum ekki áhrif á rannsókn máls og það er alveg óháð því hvert viðfangsefnið var, algerlega óháð því. Þarna hafði ekki komið fram réttarbeiðni, hún hafði ekki verið afgreidd og þess vegna var ekki heimild fyrir lögreglumennina til að athafna sig hér.

Hvort menn megi vera hér í landinu sem ferðamenn þó að þeir starfi hjá erlendu lögreglunni, þá liggur í augum uppi að það er heimilt. En þeir hafa ekki heimild til að stunda hér lögreglustörf og þegar það kom í ljós var það ítrekað við bandaríska sendiráðið hér af hálfu utanríkisráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins að slíkt gengi ekki. Þegar það hafði verið gert héldu mennirnir af landi brott. ekki var verið að hafa áhrif á ákæruvaldið eða grípa þar inn í, það er alrangt, þótt hv. þingmaður sé mjög ákafur í að reyna að skapa tortryggni í garð innanríkisráðuneytisins vegna þessa máls.

Síðan er það algerlega annað mál hvað mér finnst um afskipti bandarísku lögreglunnar af Wikileaks og rannsóknum (Forseti hringir.) um það málefni, það er bara allt annað mál. Það sneri að því hvort réttarbeiðni hefði komið fram í því sérstaka tilviki, en svo var ekki.