141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið á fimmtudaginn í þarsíðustu viku sem ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sendum bréf til forseta þess efnis að við færum fram á að í þinginu yrði flutt skýrsla af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem gerð yrði grein fyrir afstöðu ráðherrans til þeirra frétta sem bárust frá Hagstofu Íslands um að hagvöxtur ársins 2012 yrði einungis helmingur af því sem áætlað hafði verið.

Það var vel tekið í þetta og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að hún er tilbúin til að koma til þeirrar umræðu og flytja þinginu skýrslu. Nú er búið að ákveða að hér verði kvöldfundur. Ég spyr því: Hvenær ætlar virðulegur forseti sér að koma þessu mikilvæga máli á dagskrána þannig að við getum rætt um hverju það sætir að hagvöxtur ársins 2012, sem átti að verða a.m.k. 3%, reyndist síðan verða bara 1,6% (Gripið fram í: Eða minni.) eða minni, með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu, fyrirtækin og ríkissjóð.

Það er ástæða til að ræða málið í þinginu. Við höfum reynt að taka það fyrir undir liðnum um störf þingsins og í fyrirspurnatímum ráðherra en við verðum að fá að heyra afstöðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til málsins þannig að við getum átt umræðu um það. Það dugar ekki að taka það bara upp í störfum þingsins eða með fyrirspurnum á ráðherra. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að þetta mál komi sem fyrst á dagskrá þingsins.