141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hjó ég eftir því hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og ráða mátti það líka af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að sá listi sem hér liggur fyrir sem dagskrá dagsins í dag sé með einhverjum hætti tæmandi listi yfir þau mál sem ríkisstjórnin vill klára. (Gripið fram í.) Ef svo er ekki þá eru það mjög athyglisverðar upplýsingar miðað við þau ummæli sem hér hafa fallið.

Þá spyr ég líka: Hefur ekki hvarflað að hv. þingmönnum að það gæti þvælst fyrir þingstörfum þegar hér koma inn ný þingmál, 1. umr. um mál, alveg fram á síðasta dag? Halda menn að það geti ekki þvælst fyrir? Halda menn að það hafi ekki áhrif á störf þingsins þegar reynt er að keyra áfram með mál sem eru umdeildustu mál þessa þings á síðustu dögunum? Halda menn að það hafi engin áhrif? Eru menn algerlega blindir á þá stöðu sem hérna er uppi? Gera menn sér enga grein fyrir því að það er hægt (Forseti hringir.) að afgreiða fjöldann allan af málum sem gott samkomulag getur verið um og er meðal annars að finna á þessum lista ef menn leggja til hliðar ágreiningsmálin?