141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna ummæla hv. þm. Birgis Ármannssonar vil ég láta það koma fram að ekkert í máli mínu áðan gaf til kynna að hér væri endilega um tæmandi lista að ræða. Ég sagði að þetta væru þau mál sem ríkisstjórnin legði mest kapp á, og mikið kapp á, að fá afgreidd. (Gripið fram í.)

Mjög mörg önnur mál eru í vinnslu í þinginu sem einnig væri sómi að því að afgreiða. (Gripið fram í: Af hverju …?) Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði líka að það væri ekkert vandamál að afgreiða mál sem samstaða væri um ef menn ýttu ágreiningsmálunum til hliðar. Alþingi er pólitískur vettvangur. Alþingi er vettvangur þar sem er fullkomlega eðlilegt að tekist sé á um pólitískar áherslur og leiðir og það séu þá greidd atkvæði um þau mál sem ágreiningur er um, að þau fái líka að komast til afgreiðslu.

Svo er ánægjulegt til þess að hugsa að í þessari viku eru vorjafndægur og þá verður dagurinn lengri þannig að það gefur okkur tilefni til að vera bjartsýn á það að fundir geti staðið lengi í björtu. (Forseti hringir.) Alþingismönnum á ekki að vera neitt að vanbúnaði að afgreiða þau mál sem hér liggja fyrir. [Kliður í þingsal.]