141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er upplýsandi að það komi fram að það 41 mál sem hér er á listanum er ekki tæmandi talning yfir þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að koma í gegnum þingið. Það væri forvitnilegt að sjá hvaða mál til viðbótar um er að ræða, hvort það eru 10 mál, 20 mál, 30 mál, 40 mál eða 50 mál í viðbót sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á að koma í gegnum þingið þegar nokkrir dagar eru liðnir síðan störfum þingsins átti að ljúka miðað við starfsáætlun.

Það er dálítið sérstakt að ríkisstjórnarflokkarnir láta eins og þessi dagsetning, 15. mars, lokadagur þingsins, komi þeim á óvart. Hún hefur legið fyrir frá því í haust, frá því að starfsáætlun þingsins var gefin út. Það hefur legið fyrir í allan vetur að kosningar yrðu 27. apríl. Menn geta ekki látið það koma sér á óvart.

Þegar horft er á þessa dagskrá sést að hér eru fjöldamörg mál sem ágætt samkomulag getur náðst um. Á lokadögum þingsins fyrir kosningar er skynsamlegast að einbeita sér að slíkum málum, málum sem samkomulag getur náðst um, málum (Forseti hringir.) sem raunverulega hafa í sér einhverjar dagsetningar eða einhverja tímafresti sem mikilvægt er að standist — en eigum við ekki að láta (Forseti hringir.) kjósendur og næsta þing takast á um átakamálin?