141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Manni fallast eiginlega hendur að koma upp í pontu á eftir friðardúfunni sjálfri, Álfheiði Ingadóttur, sem talar hér eins og við í stjórnarandstöðunni vinnum aldrei með stjórnarliðinu í nokkrum málum. Þetta er rangt. Ég hef setið í velferðarnefnd í nokkur ár þar sem er mikið og gott samkomulag og við höfum í sameiningu komið í gegnum þetta þing mörgum góðum málum. En ef þetta er yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um að nú skuli sá friður rofinn getum við alveg talað þannig saman ef menn vilja það, en það er þá undir forustu stjórnarflokkanna sem eru leiddir hér af Álfheiði Ingadóttur.