141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði einmitt að tala um fundarstjórn hæstv. forseta og verkstjórn forsetans í þinginu sem ég tel mjög góða og til mikillar fyrirmyndar mitt í allri þessari miklu jákvæðni, eða hitt þó heldur.

Ég velti fyrir mér hverjum það eiginlega þjónar að tala Alþingi niður með þeim hætti sem hér er gert dag eftir dag. Menn virðast gleyma því að við höfum á þessu ári og undanförnum árum komið miklum þjóðþrifamálum í lög. Stundum höfum við gert það í ágreiningi, stundum í fullri samstöðu. Þetta er einkennandi fyrir störf Alþingis og við skulum ekki gleyma því.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir harmar það að við getum ekki rætt lögregluskýrslu. Ég tek undir það. En það eru vísbendingar í þeirri skýrslu sem vísa inn í næsta fjárlagaár þannig að okkur mun gefast tími til að ræða hana. Hinu vil ég mótmæla, því að tala niður (Forseti hringir.) Happdrættisstofu og því að það mál sé yfirleitt á dagskrá. Á Íslandi búum við við verstu löggjöf á Norðurlöndum í happdrættismálum, og (Forseti hringir.) þótt víðar væri leitað, og hér er verið að reyna að finna farveg til að koma þessum málum í skaplegra horf og beina fjármunum til þeirra sem hafa ánetjast spilafíkninni. (Gripið fram í: … fíkn …) Þetta er ábyrgt mál og óábyrg frammíköll hv. þm. Birgittu Jónsdóttur (Gripið fram í.) sem hefur ekki kynnt sér málið breyta engu um það. (BirgJ: Jú, ég hef kynnt mér það en ráðherra er greinilega á villigötum.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk og gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt (Gripið fram í.) í ræðustóli. Gefa hljóð í þingsalnum. )