141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:22]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp býður ekki upp á neinar töfralausnir en það boðar hins vegar endalok sjónhverfinga sem hafa viðgengist í samfélaginu allt of lengi, allt frá því að Framsóknarflokkurinn hafði forgöngu um það að lögleiða verðtrygginguna fyrir 35 árum. Æ síðan hafa bankarnir komist upp með það (SDG: Jón Sigurðsson skrifaði frumvarpið.) að veita almenningi neytendalán án þess að þurfa að upplýsa um þau áhrif sem verðtryggingin hefur á lántökukostnaðinn. Þetta frumvarp lætur ekki skuldir fólks hverfa en kveður hins vegar á um það að bankarnir verði að segja neytendum sannleikann um þann grimma veruleika sem íslenskum neytendum er boðið upp á á íslenskum lánamarkaði. Það er mikilvægt.

Leiðin fram á við liggur hins vegar í gegnum það að við tökum hér upp stöðugan gjaldmiðil sem þarf ekki á verðtryggingu eða gjaldeyrishöftum að halda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er leið okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni. Krónuleiðin boðar hins vegar óbreytt ástand og áframhaldandi kollsteypur fyrir íslenskan almenning. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)